Skip to content

Lögin

1. gr.  Heiti og almennt um samtökin

1.1. Heiti samtakanna er Samtök um kynheilbrigði.

1.2. Aðsetur samtakanna er í Reykjavík Íslandi.

1.3.  Samtökin gera ekki greinarmun á einstaklingum eftir þjóðerni þeirra, kyni, kyngervi, kynþætti, kynhneigð, trúarbrögðum, stétt, aldri, fötlun, hjúskaparstöðu, atvinnu eða stjórnmálaskoðunum.  Þetta á við um allt starf samtakanna, þjónustu þeirra og tengda starfsemi eins og þegar fólk sækir um aðild að samtökunum eða leitar hjálpar hjá þeim.

1.4.  Allur ágóði samtakanna, styrkir og eignir eiga eingöngu að vera notaðir til að vinna að markmiðum þeirra.

1.5.  Félagsmenn mega ekki notfæra sér samtökin í eigin ágóðaskyni, hvorki meðan þeir starfa með samtökunum, eftir að hafa lokið þar störfum eða eftir að þau hafa verið lögð niður.

1.6.  Samtökin starfa ekki með fjárhagslegan ágóða í huga og ekki er heimilt að þau stjórnist af viðskiptahagsmunum.

1.7. Samtökin skulu leita eftir fjárhagsstuðningi til þess að geta unnið á sem árangursríkastan hátt að markmiðum þeirra.

2. gr. Meginmarkmið

Meginmarkmið samtakanna er að efla réttindi og frelsi allra til að hafa val varðandi eigið kynlíf og barneignir. Hvetja til þess að þessi réttindi séu virt og stuðla að heilbrigðu kynlífi og frelsi til að taka ákvarðanir um barneignir.

Leiðir að þessu markmiði eru eftirfarandi:

 • Stuðla að aðgengilegri og fjölbreyttri kynheilbrigðisþjónustu fyrir alla.
 • Stuðla að hlutlausri fræðslu og ráðgjöf til allra um ábyrgt foreldrahlutverk, kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir.
 • Stuðla að kynheilbrigði ungs fólks með því að vinna að bættri kynfræðslu í skólum og aðgengi að gæða kynheilbrigðisþjónustu.
 • Gefa út fræðsluefni.
 • Standa að námskeiðum um kynheilbrigðismál fyrir fagfólk og almenning sem allir hafi jafnan aðgang að.
 • Miðla upplýsingum (t.d. frá IPPF og WHO) og rannsóknarniðurstöðum um kynheilbrigði til félagsmanna í samtökunum og annarra hliðstæðra aðila/samtaka.
 • Vera vakandi fyrir stöðu kynheilbrigðis og velferðar fólks á því sviði í þjóðfélaginu og veita upplýsingar og aðstoð um þau málefni.
 • Eiga samstarf við aðila, félög og stofnanir í þjóðfélaginu sem tengjast þessum málaflokki á sínum starfsvettvangi.
 • Starfa með stjórnvöldum að bættu kynheilbrigði.
 • Hvetja til rannsókna á sviði kynheilbrigðis.
 • Taka þátt í norrænu, evrópsku og alþjóðlegu samstarfi  á þessu sérsviði.

3. gr. Aðild að samtökunum

Allir, einstaklingar, félög eða samtök eiga rétt á að sækja um aðild að samtökunum.

3.1. Einstaklingar, félög eða samtök sem óska eftir aðild að samtökunum skulu vera samþykk lögum þess og markmiðum. Sækja skal um aðild á sérstökum rafrænum eyðublöðum til stjórnar samtakanna. Með umsókn
skulu fylgja lög viðkomandi félags eða samtaka.

3.2.  Félagsmenn hafa rétt og skyldur gagnvart samtökunum eins og tekið er fram í lögum félagsins eða samkvæmt samþykktum aðalfundar. Félagsmenn halda aðild sinni innan samtakanna svo lengi sem þeir borga félagsgjöldin, nema brottvísun eða afsögn eigi sér stað

3.3.  Stjórnin tekur ákvörðun um brottvísun úr samtökunum ef einstaklingur eða félög/samtök fara ekki eftir lögum þeirra og/eða vinna gegn markmiðunum. Félagsmönnum sem er vísað úr samtökunum eiga rétt á því að flytja mál sitt fyrir stjórn áður en brottvísun er endanlega ákveðin.

3.4. Einstaklingar, félög eða samtök sem gerast aðilar að samtökunum skulu greiða árgjald sem er ákveðið á aðalfundi samtakanna. Einstaklingar greiði einfalt árgjald, félög og samtök tvöfalt. Greiðslur árgjalds skal innheimt í byrjun starfsárs stjórnarinnar.

4. gr. Stjórn

4.1. Stjórn er kosin á aðalfundi samtakanna með meirihluta atkvæða frá fullgildum félagsmönnum sem mættir eru á aðalfundinn. Gæta skal þess að a.m.k. tveir stjórnarmeðlimir sitji áfram í næstu stjórn. Stjórn samtakanna skipa fimm félagar, formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur, eða þau embætti sem samtökin ákvarða hverju sinni. Hver stjórnarmeðlimur má aðeins hafa eitt hlutverkí stjórn hverju sinni. Æskilegt er að einn stjórnarmeðlimur sé yngri en 25 ára. Stuðla skal að því að konur séu í a.m.k. helmingi embætta stjórnarinnar. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnarseta er tvö ár nema viðkomandi gefi kost á sér aftur.

4.2. Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim eða skipar annan í sinn stað. Stjórnin skal starfa eftir ákvörðunum  aðalfundar. Stjórn má ráða og reka framkvæmdastjóra með samþykki aðalfundar. Stjórnin heldur fundi svo oft sem þörf þykir en ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Einfaldan meirihluta þarf til að styðja allar ákvarðanir hennar. Fundargerð skal gerð af ritara eftir hvern fund.  Á þetta við um alla fundi samtakanna og fundagerð skal samþykkt á næsta fund.

4.3. Hlutverk stjórnarinnar er að:

 • Bera ábyrgð á starfsemi og fjármálum samtakanna.
 • Bera ábyrgð á samstarfi samtakanna við IPPF.
 • Samþykkja nýja meðlimi eða binda endi á aðild þeirra að félaginu.
 • Uppfæra félagaskrá reglulega.
 • Halda aðalfundi.
 • Skila ársskýrslu.
 • Ákvarða hverjir skulu vera fulltrúar samtakanna á alþjóðlegum ráðstefnum eða fundum.
 • Veita styrki.

4.4. Stjórnarmeðlimur getur sagt af sér og skal það vera skriflega til stjórnar og tekur gildi um leið og afsagnarbréf er afhent nema annað komi fram.

4.5. Vanti meðlim í stjórn mega stjórnarmeðlimir kjósa sér annan meðlim í það sæti stjórnar sem laust er. Sá stjórnarmeðlimur má sitja fram að næsta aðalfundi þar sem hann verður að vera samþykktur eða annar kosinn í hans stað.

5. gr. Aðalfundur

5.1. Æðsta vald samtakanna hefur aðalfundur. Stjórn samtakanna fer með öll málefni þess á milli aðalfunda. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert og er hann opinn öllum félagsmönnum.

5.2. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað og honum löglega framfylgt.

5.3. Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum. Til breytinga á lögum samtakanna þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

5.4. Til aðalfundar skal boða með tölvupósti til allra sem eru aðilar að samtökunum með minnst tveggja vikna fyrirvara þar sem kemur fram dagsetning, tími og staðsetning fundar. Með fundarboði skal fylgja útdráttur úr ársskýrslu, niðurstaða ársreiknings, tillögur til lagabreytinga og önnur mál.

5.5. Veigamiklar tillögur svo og tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórninni með minnst þriggja vikna fyrirvara. Þær sem berast stjórn síðar skulu liggja frammi þar sem aðilar samtakanna geta kynnt sér þær.

5.6.. Formaður samtakanna skal vera fundarstjóri á aðalfundi. Ritari skal halda skrá yfir þá sem mæta á aðalfund.

5.7. Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:

 • Skýrsla formanns um framkvæmdir á liðnu ári.
 • Skýrslur nefnda.
 • Endurskoðaðir reikningar fyrir liðið reikningsár.
 • Ákvörðun félagsgjalds.
 • Lagabreytingar.
 • Tillögur um framkvæmdar-og fjárhagsáætlun næsta reikningsárs.
 • Kosning; stjórn, nefndir og tvo skoðunnarmenn reikninga
 • Samþykkja ráðningu og starfssamning framkvæmdastjóra.
 • Önnur mál.

5.8. Á aðalfundi skal ákvarða hvernig kosning í stjórn fer fram. Allir fullgildir meðlimir geta boðið sig fram í stjórnarsetu á aðalfundi.

5.9. Rétt til að sitja aðalfundi hafa fullgildir félagsmenn..Á aðalfundi hafa allir fundarmenn fullt málfrelsi og tillögurétt. Öll atkvæði eru jöfn. Skráðir skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt. Einstaklingar hafa eitt atkvæði, félög og samtök hafa tvo fulltrúa og tvö atkvæði. Verði kosning jöfn þá hefur fundarstjóri rétt til að greiða annað atkvæði eða tillagan sem kosið var um fellur niður.

5.10.  Félagsmenn hafa kosningarétt á aðalfundi samtakanna, svo fremi sem þeir hafa verið meðlimir í meira en þrjá mánuði og hafi greitt félagsgjöldin. Starfsmenn samtakanna hafa ekki atkvæðisrétt þó þeir séu meðlimir. Félagsmenn  sem hafa möguleika á fjárhagslegum ávinningi hafa ekki atkvæðisrétt á aðalfundi samtakanna.

5.11. Boða má til auka aðalfundar ef stjórn telur það nauðsynlegt eða þegar a.m.k. fimm fullgildir félagsmenn óska eftir auka aðalfundi skriflega til ritara. Í fundarboði til auka aðalfundar skal alltaf koma fram efni fundarins.

5.12. Staðgenglar eða umboðsmenn atkvæða eru ekki leyfðir.

5.13. Ekki er leyfilegt að skipa ættingja sína eða maka í stöður innan samtakanna.

6. gr. Félagsfundir

Fundi félagsmanna skal halda þegar stjórn félagsins telur þörf á eða þegar minnst fimm félagsmenn krefjast þess skriflega þar sem fram kemur hvers vegna þeir æskja fundar. Fundi félagsins skal boða með tölvupósti til allra félagsmanna með tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá fundarins. Um rétt til fundarsetu svo og atkvæðisrétt gilda sömu reglur og í 5. gr.

7. gr. Ársskýrsla

Árlega skal gefa út skýrslu samtakanna og skal stjórnin senda hana til allra einstaklinga, félaga og samtaka sem eiga aðild að samtökunum.

8.gr. Fjármál

8.1. Stjórn samtakanna skal ábyrgjast að:

 • Halda utan um styrki og aðra fjárveitingu til samtakanna.
 • Bókhald samtakanna fylgi samþykktum almennum reglum um fjármál og endurskoðun félagasamtaka
 • Fjármálin séu yfirfarin árlega af skoðanamanni reikninga
 • 1. Endurskoðandi hefur rétt á að sitja á aðalfundi þar sem reikningar eru yfirfarnir og útskýra mál sitt sé þess þörf.

8.3. Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhali samtakanna og skal það vera aðgengilegt öllum meðlimum samtakanna sem vilja skoða það.

8.4. Stjórnarmeðlimir eða félagsmenn fá ekki greitt fyrir störf sín innan samtakanna.

8.5. Ekki er leyfilegt að veita félagsmönnum lán úr sjóðum samtakanna.

9. gr. Slit samtakanna

Ákvörðun um slit samtakanna verður aðeins tekin á lögmætum aðalfundi eða aukafundi sem boðað hefur verið til í því skyni. Um boðun til slíks fundar, rétt til fundarsetu og atkvæðagreiðslu gilda sömu ákvæði og um aðalfundi. Til að slíta samtökunum þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði ákveðið að leggja niður samtökin skal eignum varið til málefna er varða markmið samtakanna. Tekur fundurinn nánar ákvarðanir um það.

10. gr. Gildistaka

Breytingar á lögum þessum voru unnar haustið 2007 og fram í mars 2008.  Breytinga var þörf til að samræmast lögum IPPF. Matsfundur var haldinn með fulltrúum frá IPPF 2007 þar sem unnar voru breytingatillögur sem farið var eftir við gerð þessara laga. Lög þessi tóku gildi 30 apríl 2008. Breytingar á lögum frá 2008 taka gildi 29. apríl 2021.

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.