Skip to content

Um Okkur

Saga samtakanna

Samtök um kynheilbrigði (KynHeil), sem áður hétu Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir (FKB), voru stofnuð 28. september árið 1992. Á stofnfundinum var Hanne Risør, formaður dönsku samtakanna um fjölskylduáætlun, fulltrúi Alþjóðasamtaka um fjölskylduáætlun (IPPF).

Samtökin hafa frá upphafi byggst á þverfræðilegu samstarfi og hefur rík áhersla verið lögð á samstarf við aðrar stofnanir og félagasamtök. Samtökin hafa unnið að bættri fræðslu og ráðgjöf um kynheilbrigði með ýmsum verkefnum. Á árunum 1995-2000 voru samtökin með starfsemi í Hinu húsinu þar sem ungt fólk gat leitað og fengið einstaklingsviðtal um kynlíf, getnaðarvarnir og barneignir. Frá árinu 1995 voru gefin út fréttabréf samtakanna. Samtökin fengu fulla aðild að IPPF árið 1998. Margir fræðslufundir voru haldnir um neyðarpilluna fyrir heilbrigðisstarfsfólk á vegum samtakanna og leiddi átakið til þess að neyðarpillan var gerð aðgengileg í apótekum án lyfseðils árið 2000. Samtökin gáfu út heildstætt kynfræðsluefni fyrir framhaldsskóla árið 2011 og er það eina efni sinnar tegundar hér á landi. Á tímabili var takmörkuð starfsemi af hálfu samtakanna. Voru þau endurreist á aðalfundi árið 2021 þar sem endurskoðuð lög og starfsáætlun voru samþykkt. Jafnframt var samþykkt að breyta heiti samtakanna og munu þau framvegis heita Kynheilbrigði.

Stjórn samtakanna

Stofnandi KynHeil/ Formaður

Sóley S. Bender, Professor

Stofnandi KynHeil/ Formaður

Sóley er sérfræðingur í kynheilbrigði og starfar sem prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur þróað kennslu um kynheilbrigði á háskólastigi og er námsstjóri þverfræðilegs diplómanáms í kynfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur stýrt mörgum rannsóknarverkefnum á sviði kynheilbrigðis og skrifað ótal fræðigreinar og bókarkafla um kynheilbrigðismál. Auk þess hefur hún samið kynfræðslunámsefni fyrir ýmis skólastig.

Ritari

Anna Eir Guðfinnudóttir

Ritari

Anna Eir Guðfinnudóttir er með B.Sc. í sálfræði og M.Ed. í sálfræðikennslu á framhaldsskólastigi. Að auki er hún með tvær viðbótardiplómur á meistarastigi, í lýðheilsuvísindum og í kynfræði. Hún skrifaði meistararitgerð sína um mikilvægi kynfræðslu á framhaldsskólastigi. Anna Eir vinnur sem sálfræðikennari við Menntaskólann við Hamrahlíð.

Gjaldkeri

Arna Garðarsdóttir, MS

Gjaldkeri

Arna Garðarsdóttir kláraði meistaranám í hjúkrun og diploma í kynfræði árið 2017. Hún hefur líka verið í stjórn Kynís síðan árið 2017, ritari 2017-2018, gjaldkeri frá 2018 og áfram. Arna vinnur sem skólahjúkrunarfræðingur í Menntaskólanum í Reykjavík og á heilsugæslu miðbæjar.

Stjórnarmeðlimur

Katrín Hilmarsdóttir

Stjórnarmeðlimur

Katrín stundaði nám við Háskóla Íslands og lauk B.Sc. grunnnámi í Hjúkrunarfræði árið 2009 og MPH meistaranámi í Lýðheilsuvísindum  árið 2021. Í meistaranámi lagði hún áherslu á kynheilbrigði ungmenna og fjallaði lokaverkefni um smokkanotkun ungra karlmanna á Íslandi. Þá hefur hún tekið þátt í störfum þverfræðilegs fagráðs LSH og Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ um kynheilbrigði. Katrín starfar hjá Sidekick Health við gerð stafræns fræðsluefnis um heilsueflingu og stuðning við fólk með lífsstílssjúkdóma, krabbamein og á meðgöngu. 

Stjórnarmeðlimur

Helga Sigfúsdóttir

Stjórnarmeðlimur

Helga stundaði nám við Háskóla Akureyrar þar sem hún útskrifaðist með B.A. gráðu í sálfræði vorið 2016. Síðar lauk hún diplómanámi í kynfræði frá Háskóla Íslands árið 2020. Í febrúar 2023 kláraði hún meistaranám í heilbrigðisvísindum með áherslu á kynheilbrigði við Háskóla Íslands.

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.