Samþykkt á aðalfundi Samtaka um kynheilbrigði 29 apríl 2021
Starfsáætlun 2021-2026
KynHeil leggur áherslu á heildræna nálgun til kynheilbrigðis þar sem kynferðisleg ánægja, valdefling einstaklingsins og aðgengi að úrræðum er sett á oddinn. Að öllum sé gert kleift að nýta rétt sinn til kynheilbrigðis, þar sem kynlíf er eðlilegur hluti af lífinu, val er virt og fordómar eru ekki til staðar. Í því felst að geta fengið kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu til að geta lifað ánægjulegu og heilbrigðu kynlífi. Samtökin vinna að þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem varða kynheilbrigði mannsins.
Verkefni 2021-26
KynHeil stefnir að því að vera þekkt fyrir sérfræðiþekkingu á öllum sviðum kynheilbrigðis og réttindum því tengdum. KynHeil er talsmaður réttinda fólks er lýtur að kynheilbrigði. Sérstaklega er þetta mikilvægt varðandi ungt fólk. KynHeil leggur mikla áherslu á að fyrirbyggja og útrýma kynsjúkdómum og kynferðisofbeldi. Samtökin líta svo á að uppræta þurfi kynferðisofbeldi í öllum samfélögum. KynHeil vill gera lagaákvæði um kynfræðslu virkari til þess að gera ungu fólki kleift að lifa heilbrigðu kynlífi og hafa greiðan aðgang að ódýrum eða ókeypis getnaðarvörnum. Mikilvægt er að styrkja stöðu ungs fólks varðandi kynheilbrigði og réttindi tengd því. KynHeil vill upplýsa almenning um kynheilbrigði og mikilvægi þess, berjast gegn fordómum er varða kynverund (kynvitund, kynhneigð…) mannsins og berjast fyrir rétti kvenna til þess að hafa aðgang að öruggum og ódýrum eða ókeypis getnaðarvörnum til að fyrirbyggja óráðgerða þungun. Jafnframt að halda vörð um lög um þungunarrof.
Unglingar og ungt fólk
Meginmarkmið
Allir unglingar og ungt fólk hafi rétt á góðri fræðslu og þjónustu tengdri kynheilbrigði til að gera þeim kleift að lifa heilbrigðu kynlífi.
Markmið 1: Bæta og styrkja kynfræðslu í skólum og á frístundaheimilum.
Áætlun:
Styðja við starfsemi og vinna með mögulegum samstarfsaðilum á vegum sveitarfélaga og samtaka, einkafyrirtækja (t.d. lyfjafyrirtæki), fagfólki sem koma að málaflokknum, löggjafavaldi og fleirum.
- Auka samstarf við samtök meðal unglinga og ungs fólks í skólum.
- Styrkja jafningjafræðslu í frístundaheimilum unglinga.
- Styðja við og starfa með fagfólki og fræðsluaðilum í grunn- og framhaldsskólum.
- Vinna að því að haldin séu regluleg námskeið fyrir þá sem sinna kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.
- Auka fræðslu til fagfólks um kynheilbrigði.
Markmið 2: Bæta aðgengi unglinga og ungs fólks að kynheilbrigðisþjónustu.
Áætlun:
Þróa þarf áfram móttökur á sviði kynheilbrigðis til að tryggja jafnan aðgang unglinga og ungs fólks að upplýsingum á þessu sviði.
- Stuðla að stofnun unglingamóttöku, með áherslu á kynheilbrigði, í þéttbýli sem og á landsbyggðinni.
- Stuðla að gæðum kynheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk.
Markmið 3: Styrkja rödd unglinga og ungs fólks hvað varðar réttindi þess tengd kynlífi og barneignum.
Áætlun
- Fá fleira ungt fólk til liðs við KynHeil.
- Þjálfa ungt fólk til að vera málsvari jákvæðra viðhorfa til kynlífs.
- Styðja við samtök ungmenna sem vilja taka þessi mál til umræðu.
Kynsjúkdómar
Meginmarkmið
Fækka þeim sem smitast af kynsjúkdómum, einkum klamydíu.
Markmið 1: Auka þekkingu unglinga og ungfs fólks á orsökum og afleiðingum kynsjúkdóma.
Áætlun
• Hvetja til betra aðgengis unglinga og ungs fólks að upplýsingum um kynsjúkdóma.
• Hafa aðgengilegar upplýsingar um kynsjúkdóma á heimasíðu KynHeil.
Markmið 2: Auka og bæta fræðslu um kynsjúkdóma í skólum landsins.
Áætlun
• Stuðla að því að grunnskólinn fari í orsakir og afleiðingar helstu kynsjúkdóma.
• Stuðla að því að í framhaldsskólum sé byggt ofan á það efni um kynsjúkdóma sem grunnskólinn fjallar um.
Markmið 3: Fjölga þeim sem finnst sjálfsagt mál að nota smokkinn við kynmök.
Áætlun
• Stuðla að öflugri fræðslu í grunn- og framhaldsskólum um notkun smokka.
• Þróa verkefni um smokkanotkun sem verði gert aðgengilegt fyrir grunn- og framhaldsskóla á heimasíðu KynHeil.
Þungunarrof
Meginmarkmið
Sérhver einstaklingur hafi rétt á og hafi stuðning til að taka sjálfstæða ákvörðun um eigin barneignir, hafi gott aðgengi að getnaðarvörnum og kynheilbrigðisþjónustu og geti þannig stjórnað eigin frjósemi. Til staðar sé greitt aðgengi að löglegu þungunarrofi við öruggar aðstæður.
Markmið 1: Bæta upplýsingar til almennings, einkum minnihlutahópa, um þungunarrof og aðgengi kvenna að þeim.
Áætlun
• Standa vörð um rétt kvenna til öruggra og löglegra þungunarrofa.
• Upplýsingar um þungunarrof eru aðgengilegar á heimasíðu KynHeil.
Markmið 2: Auka fræðslu um getnaðarvarnir ásamt því að skapa gott aðgengi að getnaðarvörnum og neyðargetnaðarvörn til að draga úr þörfinni fyrir þungunarrofi.
Áætlun
• Auka aðgengi og framboð á ókeypis/ódýrum getnaðarvörnum.
• Auka aðgengi að upplýsingum um getnaðarvarnir.
• Upplýsingar um getnaðarvarnir og neyðargetnaðarvörn eru aðgengilegar á heimasíðu KynHeil.
Markmið 3: Auka framboð á góðri ráðgjöf um getnaðarvarnir í tengslum við þungunarrof.
Áætlun
• Styðja við bætt aðgengi kvenna að ráðgjöf um getnaðarvarnir.
• Upplýsingar um fræðslu og ráðgjöf hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um getnaðarvarnir eru á heimasíðu KynHeil.
Markmið 4: Styðja sjálfsákvörðunarrétt til þungunarrofs.
Áætlun
• Upplýsingar um þungunarrof eru á heimasíðu FKB.
• Styðja við breytingar á löggjöf í erlendum ríkjum þannig að hún styrki enn frekar sjálfsákvörðunarrétt til þungunarrofs.
Aðgengi að upplýsingum og kynheilbrigðisþjónustu
Meginmarkmið
Allir hafi jafnan rétt og gott aðgengi að upplýsingum um kynlíf og frjósemi á kynheilbrigðismóttöku og hafi vitneskju um hvar slík þjónusta er í boði.
Markmið 1: Stuðla að góðu aðgengi að faglegum upplýsingum um kynheilbrigði.
Áætlun
• Veita faglegar upplýsingar um kynheilbrigði á heimasíðu samtakanna.
• Vekja almenning til meðvitundar um gæði upplýsinga um kynheilbrigði á netinu, hvaðan upplýsingar koma, hvort þær koma frá fagfólki eða fyrirtækjum eða einstaklingum.
Markmið 2: Hvetja alla til þess að notfæra sér rétt sinn til aðgengis að réttum upplýsingum varðandi kynheilbrigði og þá þjónustu sem völ er á.
Áætlun
• Auka vitneskju almennings varðandi réttar upplýsingar um kynheilbrigðismál.
• Auka vitneskju almennings um réttindi þeirra til góðrar kynheilbrigðisþjónustu.
• Upplýsingar um helstu lög varðandi kynheilbrigði eru á heimasíðu KynHeil.
• Upplýsingar um alþjóðlegar samþykktir varðandi rétt til kynheilbrigðis eru á heimasíðu KynHeil.
Markmið 3: Bæta upplýsingar um og auka aðgengi að góðri kynheilbrigðisþjónustu, sérstaklega á landsbyggðinni.
Áætlun
• Stuðla að stofnun þjónustumiðstöðva sem sérhæfa sig í kynheilbrigði.
• Stuðla að því að bæta þá kynheilbrigðisþjónustu sem nú þegar er til staðar.
• Bæta aðgengi að ódýrum og/eða ókeypis getnaðarvörnum.
• Stuðla að og koma með tillögur til ráðamanna um að opnaðar verði unglingamóttökur með áherslu á kynheilbrigðisþjónustu.
Samráð
Meginmarkmið
Stuðla að sýnileika kynheilbrigðis í samfélaginu með umfjöllun um mikilvægi kynheilbrigðis á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi. Ná fram pólitískri og fjárhagslegri skuldbindingu og stuðningi fyrir kynheilbrigði og réttindum þess innan lands og utan.
Markmið 1: Auka þekkingu og skilning stjórnvalda á mikilvægi kynheilbrigðis og réttinum þess.
Áætlun
• Vinna í góðum tengslum við stjórnvöld og stofnanir þeirra sem koma að málaflokknum.
• Vinna með stjórnvöldum að starfsáætlun um kynheilbrigði fyrir ungt fólk.
• Vinna með stjórnvöldum að því að koma í framkvæmd verkefnum á sviði kynheilbrigðis.
Markmið 2: Styrkja og bæta stuðningsnet þeirra er vinna að fræðslu og réttindamálum varðandi kynheilbrigði.
Áætlun
• Koma auga á tilvonandi talsmenn í umræðunni um kynheilbrigði meðal þess fagfólks sem starfar á heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum og í einkageiranum.
• Koma á jákvæðu sambandi við fjölmiðla til þess að koma þessum málefnum á framfæri.
Markmið 3: Styrkja rödd þeirra er tala fyrir mikilvægi kynheilbrigðis.
Áætlun
• Finna mögulega samstarfsmenn og bandamenn.
• Starfa með samtökum sem vinna að svipuðum málefnum.
• Koma á framfæri vitneskju um mikilvægi réttinda til kynheilbrigðis til mögulegra samstarfsaðila.