Kynning á samtökunum
Starfsemi samtakanna byggist á ákveðnum grundvallarþáttum. Lögð er áhersla á heildræna nálgun til kynheilbrigðis þar sem tilfinningalegt, félagslegt, sálrænt og líkamlegt heilbrigði einstaklingsins sem kynvera er haft að leiðarljósi. Þar er kynferðisleg ánægja, valdefling einstaklingsins og aðgengi að úrræðum í forgrunni. Öllum sé gert kleift að nýta rétt sinn til kynheilbrigðis, þar sem kynlíf er eðlilegur hluti af lífinu, val er virt og fordómar eru ekki til staðar. Í því felst að geta fengið kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu til að geta lifað ánægjulegu og heilbrigðu kynlífi.
Stefna samtakanna er að vinna að jöfnum rétti allra í samfélaginu til kynheilbrigðis.
Gerð fræðsluefnis
Í starfsáætlun samtakanna er lögð áhersla á faglegar upplýsingar um kynheilbrigði. Samtökin bjóða uppá margvíslegt fræðsluefni á heimasíðunni en einnig í gegnum kynfræðsluefni.
Samstarfsverkefni
Með fagfólki
Endurskoðun á kynfræðsluefninu Ungt fólk og kynlíf hefur verið unnið í samstarfi við ýmsa fagaðila og félagasamtök svo sem Samtökin 78, Tabú, Trans Ísland og Kynfræðifélag Íslands. Haldnar voru tvær vinnusmiðjur með þessum aðilum. Námsefnið er í vinnslu.
Með ungu fólki
Það er stefna samtakanna að fá ungt fólk til liðs við samtökin til að vinna að málefnum er varða kynheilbrigði þess. Samtökin fagna því að fá hugmyndir frá ungu fólki um það sem betur mætti fara í kynheilbrigðismálum.
Undirbúningur að aðild að IPPF
Þegar er hafin undirbúningsvinna varðandi umsókn um aðild að Alþjóðasamtökum um fjölskylduáætlun (IPPF= International Planned Parenthood Federation, www.ippf.org).
Stjórn samtakanna hefur haldið vinnufund til að undirbúa umsókn um aðild að IPPF. Einnig hefur stjórnarmeðlimur fundað með fulltrúa IPPF og aflað hefur verið nauðsynlegra gagna og upplýsinga um aðildarumsókn. Það er mikilvægt fyrir Samtök um kynheilbrigði að taka þátt í alþjóðasamstarfi og samvinnu við önnur sysrafélög um kynheilbrigðismal. Undirbúningur umsóknar er í vinnslu