Skip to content

Tölum um unað

6. september 2022

Í myndaðu þér heilan dag sem er helgaður kynlífsunaði og mikilvægi hans fyrir kynheilsu okkar og almenna hreysti. Alþjóðasamtök um kynheilsu (The World Association for Sexual Health (WAS)) ákváðu að gera nákvæmlega það og þema Alþjóðlega kynheilsudagsins (World Sexual Health Day) í ár er „Tölum um unað“. Á sunnudaginn, þ.e. 4. september, var kastljósinu beint að líkamlegu sjálfræði, samþykki, öryggi, persónuvernd, sjálfsöryggi og virkum samskiptum sem undirstöðuþáttum unaðar og góðrar heilsu.

Fyrirtæki og stofnanir, háskólastofnanir, stjórnvöld, heilbrigðisstarfsfólk, talsmenn, fjölmiðlar og aðrir sem hafa áhrif á orðræðu og umfjöllun hafa verið beðnir að leggja okkur lið við að tala um mikilvægi kynferðislegs unaðar, hver með sínum hætti. Þetta gerum við í fjölmörgum hópum í minnst 35 löndum og með ýmsum aðferðum, svo sem hringborðsumræðum, ráðstefnum, listsýningum, leiksýningum, herferðum á samfélagsmiðlum, fræðsluverkefnum, pólitískum aðgerðum og á ýmsan annan hátt.

Íslensku samtökin um kynheilbrigði (KynHeil), áður Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir (FKB), hafa lagt áherslu á að ræða um kynferðislegan unað sem einn lykilþáttanna í fræðslu um kynheilsu og stefnu um kynheilsu og frjósemisheilbrigði, sem og hvatt til víðtækrar fræðslu um kynlíf og kynheilsu. KynHeil veit að ungt fólk hefur ríka þörf fyrir að ræða tilfinningar, kenndir, rómantík, langanir, kyntjáningu, gagnkvæmar tilfinningar, kynferðislegt sjálfstraust og nánd. Unglingar eru forvitnir um kynóra, kynferðisleg samskipti og fullnægingu. Unglingar þurfa öruggt, hvetjandi umhverfi þar sem þau geta átt upplýst samtal um öll þessi viðfangsefni, og ekki síst til að hugleiða spurningu sem er sjaldan eða aldrei lögð fyrir þau: Hvernig skilgreinir þú „kynferðislegan unað“?

„Tölum um unað“ er vettvangur þar sem Alþjóðasamtök um kynheilsu (WAS) ræða um kynferðislegan unað sem kynferðisleg réttindi, með áherslu á fjölbreytni, jafnrétti, sjálfræði, umráð yfir eigin líkama og tjáningarfrelsi sem aðferðir til að efla og stuðla að góðri heilsu. Alþjóðasamtök um kynheilsu (WAS) leggja áherslu á að unaður á að vera jákvæð upplifun sem er laus við smánun, skömm, sektarkennd eða misbeitingu og þvingun. Með því að setja unaðinn í forgang myndast dýpri tengsl sem auðvelda elskendum að þroska núvitund og nærveru.

Með opinskáu samtali um unað læra ungmenni að kynferðisleg nánd snýst ekki bara um samfarir. Kynlíf sem setur unað í forgang snýst um könnun og upplifun, fremur en árangurs- og frammistöðumiðað kynlíf. Áherslan er ekki á mælanlegan árangur. Það er hægt að upplifa og næra unað hvort sem fullnæging næst eða ekki.

Því fylgir margs konar ávinningur, þar á meðal aukin nærvera/núvitund, sterkari tengsl við líkamann, bætt samskipti, aukin gagnkvæm ánægja, minni áhersla á fullnægingu/sáðlát hjá karlmanninum, aukið frelsi kvenna til að sækjast eftir unaði, aukin fjölbreytni og meiri forleikur, aukin áhersla á snertingu og munúð, sterkari tenging, aukin meðvitund um hvað okkur finnst gott eða ekki gott og aukið aðgengi allra að unaði og kynferðislegri upplifun, óháð kynhneigð, kyni eða líkamlegri færni.

Með því að stuðla að og styðja við samtal um kynferðislegan unað gerum við unga fólkið okkar betur upplýst um kynlíf og kynheilsu og meðvitaðra um mikilvægi gagnkvæms samþykkis og gagnkvæmrar fullnægju jafnt í kynlífi sem í samböndum, betur í stakk búið til að lifa gefandi og góðu kynlífi án aðkomu vímugjafa og að eigin vild og sátt við sjálft sig sem kynverur, í mörgum og mismunandi birtingarmyndum kynverundarinnar. Þetta unga fólk tilheyrir nýrri kynslóð sem getur tjáð kynverund sína án ofbeldis og mismununar, laus við menningartengda skömm eða smánun. Á sunnudaginn kynntum við til sögunnar kynslóð sem veit að aukinn unaður bætir heilsuna.