Skip to content

Yfirlýsing

1. febrúar 2022

Í kjölfar töluverðrar umfjöllunar í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum að undanförnu vilja Samtök um kynheilbrigði (áður Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir) leggja áherslu á eftirfarandi:

Samtökin árétta rétt barna og unglinga á heildrænni fræðslu um kynheilbrigði sem hentar aldri og þroska þeirra. Skólakerfið og þeir aðilar sem veita fræðslu um kynheilbrigði verða að takast á við margvíslegar spurningar unglinga um kynheilbrigðismál, þar á meðal um kynferðislega ánægju, samskipti, virðingu, kynþroska, klám og ofbeldi.

Það er réttur hvers og eins að fá tækifæri til að þróa með sér og tjá sína eigin kynverund innan ramma kynheilbrigðis, af virðingu, heilindum og með samþykki. Ungt fólk þarf leiðbeiningar til að átta sig á heilbrigðu, upplýstu kynlífi sem einkennist af vali, samþykki, samskiptum, gagnkvæmri ánægju og vellíðan. Þetta felur meðal annars í sér að hjálpa þeim að greina á gagnrýninn hátt margvísleg skilaboð samfélagsins og þá félagsmótun sem hefur haft áhrif á þau frá fæðingu. Það er mikilvægt að ögra þeim skilaboðum sem birtast meðal annars í klámi og annarri afþreyingu (svo sem í bíómyndum, á samfélagsmiðlum og í tónlistarmyndböndum), og hjálpa þeim að sjá að slík afþreying endurspeglar ekki endilega raunveruleikann.

Tilgangurinn með kynfræðslu er að stuðla að kynheilbrigði, meðal annars með því að styðja ungt fólk í að taka góðar og valdeflandi ákvarðanir. Sú fræðsla þarf að vera veitt af virðingu, með opnum huga og með því að mæta unglingum þar sem þau eru stödd.