Skip to content

Sóley Bender talar við Fréttablaðið um hvers vegna Íslendingar stundi kynlíf svo snemma…

10. janúar 2022

Samkvæmt nýrri samantekt heilbrigðistímaritsins Manual: Men’s Health byrja íslenskir karlmenn ungir að stunda kynlíf, eiga marga rekkjunauta yfir ævina og giftast seint. Þeir fá gott feðraorlof og lifa lengi en fara seinna á eftirlaun.

Samantektin var gerð í 35 löndum víðs vegar um heim og voru meðal annars notuð gögn frá Evrópusambandinu, OECD, þýska tölfræðifyrirtækinu Statista og breska smokkaframleiðandanum Durex til samanburðarins. Meðal þess sem kemur fram er að íslenskir karlmenn missa að meðaltali sveindóminn 15,6 ára gamlir, í flestum tilvikum í 10. bekk grunnskóla.

Tveimur árum á undan

Þetta er lægsti aldurinn og nærri tveimur árum undir heimsmeðaltalinu, sem er 17,3 ár. Á hinum Norðurlöndunum missa piltar sveindóminn að meðaltali á 17. aldursári en 18 ára í Bretlandi og Bandaríkjunum. Elstir eru sveinar í Indlandi og Malasíu, en þar stunda þeir kynlíf í fyrsta sinn 23 ára.

„Við höfum engar vísindalegar skýringar á þessu,“ segir Sóley S. Bender, forstöðumaður fræðasviðs um kynheilbrigði við Háskóla Íslands, aðspurð hvers vegna Íslendingar stundi kynlíf svo snemma.

„En við getum velt því fyrir okkur hvort það sé eitthvað í samfélagsgerðinni sem hafi áhrif. Er unga fólkið okkar frjálsara og minna fylgst með því?“ spyr hún.

Meiri áhætta

Sóley segir þetta hafa afleiðingar þar sem því að byrja að stunda kynlíf á grunnskólaaldri fylgi miklu meiri áhættuhegðun.

„Unglingar hafa ekki jafn mikinn þroska til þess meðal annars að setja sér og öðrum mörk í kynlífi og geta átt í erfiðleikum með að nota smokkinn. Eftir því sem þú verður eldri verður sjálfsmyndin sterkari og sjálfsöryggið líka.“

Fleiri rekkjunautar

Í samantektinni kemur fram að meðalbólfélagafjöldi íslenskra karlmanna sé 13, sem er með því mesta í heiminum. Aðeins Tyrkir, Ástralar og Nýsjálendingar hafi fleiri og heimsmeðaltalið er 9,3. Aftur eru það Indverjar sem eru á hinum enda skalans með þrjá bólfélaga yfir ævina.

Íslenskir karlmenn giftast 34,5 ára gamlir, sem er rúmlega tveimur árum yfir heimsmeðaltalinu en ekki meðal þess allra hæsta. Ástralskir karlar giftast 39 ára en indverskir 26. Ísland er þó til dæmis fimm árum yfir Bandaríkjunum.

Meira frelsi hér

Sóley segir þetta snúast um samfélagsgerðina. „Í Bandaríkjunum er gríðarlegur þrýstingur á að ganga í hjónaband. En við búum ekki í slíku samfélagi. Hér hefur fólk frelsi til að vera í sambúð svo lengi sem það vill,“ segir hún.

Þá er hér næstlengsta feðraorlofið, eða 365 dagar, með Japönum en lengst er það í Svíþjóð. Aðeins tíu af löndunum 35 hafa feðraorlof. Íslenskir karlmenn fá þó stutt eftirlaun. Aldurinn miðast við 67 ár, sem er það hæsta í heimi ásamt Ítalíu og Grikklandi. En meðalævinlengdin er 81 ár og fá til dæmis sænskir og norskir karlmenn rúmlega fimm árum lengri eftirlaunatíma.