Höfundur: Sóley S. Bender, formaður
Af hverju er 14. september merkilegur í sögu fjölskylduáætlunar?*
Þennan dag fyrir 144 árum eða árið 1879 fæddist stúlka í New York sem gefið var nafnið Margaret Louise Higgins, seinna nefnd Margaret Sanger. Foreldrar hennar voru kaþólskir. Móðir hennar varð þunguð 18 sinnum og eignaðist 11 börn. Margrét lærði hjúkrun og barðist fyrir rétti kvenna til að stjórna barneignum með bættri fræðslu til þeirra um það málefni því til staðar var mikil fáfræði, fátækt, hár mæðra- og ungbarnadauði og lítil úrræði til að takmarka barneignir. Í einni af mörgum heimsóknum hennar til konu í fæðingu spurði konan lækninn hvernig hún gæti komið í veg fyrir frekari þunganir. Svar læknisins var á þá leið að hún skyldi segja við eiginmanninn að sofa á þaki hússins. Margrét skynjaði þessa miklu neyð kvenna og fjölskyldna þeirra.
Sótt til saka fyrir dreifingu fræðsluefnis
Margrét var margsinnis sótt til saka fyrir að dreifa fræðsluefni um takmörkun barneigna því í Bandaríkjunum voru í gildi svokölluð Comstock lög sem bönnuðu dreifingu á slíku efni. Hún skrifaði reglulega pistla í blaðið New York Call, annar var sérstaklega ætlaður mæðrum og nefndist: „What all mothers should know“ (1911-12) og hinn var ætlaður ungum stúlkum og hét: „What every girl should know“ (1912-13). Ýmsum þóttu skrifin vera djörf.
Árið 1914 gaf hún út ritið „Woman Rebel“ sem var feminískt fréttablað og fjallaði um rétt kvenna, ástina og hjónabandið, konur á vinnumarkaði, kynfræðslu og getnaðarvarnir. Hvert blað var átta blaðsíður og voru alls gefin út átta eintök. Margir höfundar skrifuðu greinar í fréttablaðið.
Þann 16. október árið 1916 opnaði hún fyrstu göngudeildina á sviði fjölskylduáætlunar í Brooklyn í New York í Bandaríkjunum og 10 dögum síðar var hún handtekin.
Árið 1917 kom út bæklingurinn „Family Limitation“ sem var 16 blaðsíður að stærð. Þar var fjallað um getnaðarvarnir þess tíma og sýndar myndir af þeim.
Stofnaði samtök og átti þátt í mikilvægum lagabreytingum
Árið 1921 stofnaði hún samtökin „American Birth Control League“ sem urðu að „Planned Parenhood Federation of America (PPFA)“ árið 1942. Þessi samtök eru starfandi enn í dag í Bandaríkjunum. **
Barátta Margrétar fyrir rétti kvenna að takmarka barneignir hjálpaði til við að gera getnaðarvarnir löglegar í Bandaríkjunum. Til að vinna að þeirri lögleiðingu stofnaði hún nefnd sem fékk heitið: „National Committee on Federal Legislation for Birth Control“.
Um miðja tuttugustu öldina var í undirbúningi stofnun Alþjóðasamtaka um fjölskylduáætlun (International Planned Parenthood Fderation). Ýmsar þjóðir höfðu þá um nokkurt skeið starfað á þessu sviði eins og Bandaríkin, Svíþjóð og Bretland. Margrét sótti stofnfund þeirra sem haldinn var þann 24. nóvember árið 1952 í Bombay á Indlandi og voru PPFA eitt af stofnfélögum þess. Hún var forseti IPPF fyrstu sjö starfsár þeirra eða á árunum 1952-1959.
Framlag hennar mikilvægt
Eins og fram hefur komið er framlag Margaret Sanger varðandi rétt kvenna til að takmarka barneignir gríðarlega mikið . Talið er að hugtakið stjórnun barneigna eða „birth control“ hafi upprunalega verið sett fram af henni. Hér er aðeins stiklað á stóru en frekari fróðleik er t.d. unnt að finna í þeim heimildum sem hér hafa verið nefndar.
*Notað er hér hugtakið fjölskylduáætlun í stað kynheilbrigðis vegna þess að það hugtak var í notkun langt fram eftir 20. öldinni.
** Planned Parenhood Federation of America hafa um nokkurt skeið gengið undir nafninu Planned Parenthood.
Heimildir:
Horwitz, R. (2018). The woman rebel. https://embryo.asu.edu/pages/woman-rebel-1914
Latson, J. (2015). Why birth control pioneer Margaret Sanger kept getting arrested. https://time.com/4065338/margaret-sanger-clinic-history/
Sanger, M. (2004). The autobiography of Margaret Sanger. Dover Publications.
Suitters, B. (1973). Be brave and angry. Chronicles of the International Planned Parenthood Federation. Stepen Austin and Sons.