Skip to content

Hugleiðingar um kynfræðslu

10. október 2023

Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um kynfræðslu í skólum er vert að huga að nokkrum atriðum sem varðar efnisþætti kynfræðslunnar, þroska nemenda, hugtakið kynlíf en einnig hvernig hefur verið staðið að því hér á landi að taka upp erlent kynfræðsluefni, þýða það og staðfæra.

Ýmsar alþjóðlegar stofnanir eins og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) í samvinnu við Miðstöð um kynfræðslu í Evrópu (BZgA) hafa gefið út leiðbeiningar um kynfræðslu. Í þessum leiðbeiningum kemur fram að eigi að hefja kynfræðslu snemma. Í leiðbeiningum UNESCO er miðað við að hefja kynfræðsluna þegar barn er fimm ára en frá fæðingu samkvæmt leiðbeiningum WHO og BZgA. Báðar stofnanirnar skipta efninu upp eftir aldurshópum og miðast kennslan við þroska nemenda á hverju aldursskeiði. UNESCO skiptir efninu upp eftir fjórum aldursskeiðum, þ.e. 5-8 ára börn, 9-12 ára börn, 12-15 ára börn og 15-18+ ára börn en hjá WHO og BZgA eru aldursskeiðin sex þ.e. 0-4 ára, 4-6 ára, 6-9 ára, 9-12 ára, 12-15 ára og 15 og eldri. Kennsla á hverju aldursskeiði miðast við að undirbúa nemendur undir næsta stig.

Þessar tvær stofnanir, UNESCO annars vegar og WHO og BZgA hins vegar, leggja upp með ákveðna efnisflokka sem skuli kenna í öllum aldurshópum en á mismunandi hátt eftir aldri nemenda. Þessir efnisflokkar eru um margt svipaðir og verða hér nefndir efnisflokkar WHO og BZgA. Lögð er áhersla á átta efnisflokka, þ.e. um 1) mannslíkamann og þroska, 2) frjósemi og æxlun, 3) kynverund/kynlíf (sexuality), 4) tilfinningar, 5) sambönd og lífsstíl, 6) kynheilsu og vellíðan, 7) rétt til kynheilbrigðis og 8) félags- og menningarlega þætti kynverundar. Efnisflokkarnir sýna að kynfræðsla er mun meira en umfjöllun um getnaðarvarnir (2) og kynsjúkdóma (6). Með kennslunni skal huga að því að byggja upp þekkingu nemenda, vinna með viðhorf en einnig að auka færni þeirra. Þetta eru allt grundvallarþættir kynfræðslu, þ.e. þekking, viðhorf og færni. Ef skoðaður er einn efnisflokkur út frá 6-9 ára börnum sem fjallar um félags- og menningarlega þætti kynverundar þá er þekkingarlega lögð áhersla á hlutverk kynjanna, viðhorfin sem reynt er að þroska með nemendum er virðing fyrir ólíkum lífsstíl, lífsgildum og hefðum. Til að skapa hjá nemendum færni hvað þetta atriði varðar þá er þeim gefið tækifæri til að ræða um eigin reynslu, óskir og þarfir sem viðkemur menningarlegum hefðum. Slíkar leiðbeiningar eru síðan útfærðar í handbókum til kennara.

Eins og fram kemur í þessari umfjöllun er ýmist notað hugtakið kynverund eða kynlíf yfir enska hugtakið sexuality. Hugtakið sexuality er stórt hugtak sem felur í sér allt það sem við erum sem kynverur. Auk þess hvernig við skynjum okkur sjálf og aðra, okkar tilfinningar, lífsgildi, viðhorf en einnig menningarleg áhrif sem við verðum fyrir. Það á við um kynvitund, kynhneigð og kynhegðun. Aðeins hluti af hugtakinu sexuality á við um samfarir en hugtakið kynlíf í daglegu tali hefur iðulega þá merkingu. Í ljósi þess hvernig hugtakið sexuality hefur verið notað af fræðimönnum þá megi til sanns vegar færa að nota fremur þýðinguna kynverund þegar fjallað er um kynfræðslu yngri barna en hugtakið kynlíf fyrir eldri aldurshópa.  

Það er ekki nýtt að kynfræðsluefni hafi verið þýtt og staðfært fyrir íslensk börn og unglinga. Má þar nefna að árið 1991 var gefið út námsefnið Kynfræðsla, lífsgildi og ákvarðanir. Það samanstóð af handbók fyrir kennara, handbók fyrir foreldra og myndböndum sem unnt var að nota í kennslustundum. Það var heildstætt kynfræðsluefni með 15 kennslustundum sem var ætlað efstu bekkjum grunnskólans. Víðtækt samstarf var um efnið og var það unnið á vegum samstarfsnefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins. Þverfræðilegur hópur fjölda fagaðila fór vel yfir efnið og gætti þess að það ætti vel við íslenskar aðstæður því uppruni þess var í Bandaríkjunum. Það tók nokkur ár að vinna þá vinnu. Áður en það fór á markað var gerð rannsókn á því á vegum Háskóla Íslands til að skoða hvernig gengi að kenna það og hvaða árangri það gæti skilað. Námsefninu var vel tekið af þeim sem tóku þátt í tilraunakennslu þess. Það var gefið út á vegum Námsgagnastofnunar.

Það er dýrmætt að fá nýtt kynfræðsluefni sem kennarar og skólahjúkrunarfræðingar geta nýtt sér í grunnskólum landsins. Kennsluleiðbeiningar þurfa að vera skýrar. Slíkt efni krefst góðs undirbúnings og samstarfs við marga aðila. Auk þess er mikilvægt að prófa efnið áður en það er sett á markað. Slík prófun getur veitt gagnlegar upplýsingar um frekari mótun efnisins og skilað sér í meiri ánægju með efnið meðal hlutaðeigandi aðila eins og foreldra.

Sóley S. Bender, formaður Samtaka um kynheilbrigði, prófessor emerita

382701272_218549594561466_2514745788366598589_n