Skip to content

Gefum kyn­fræðslu raun­veru­legt rými

23. september 2022

Kyn­fræðsla er ævi­langt ferli þar sem ein­stak­lingur aflar sér þekkingar og myndar sér skoðanir, við­horf og gildi um eigin sjálfs­mynd og kyn­verund. Al­hliða kyn­fræðsla byrjar snemma á lífs­leiðinni, miðar að aldri hvers og eins, veitir upp­lýsingar um heil­brigði og vel­líðan, leggur á­herslu á heilsu­sam­lega hegðun og færni og vinnur með við­horf og lífs­gildi nem­enda.

Á haust­mánuðum 2020 var til­kynnt um stofnun starfs­hóps á vegum mennta- og menningar­mála­ráðu­neytisins, en hópurinn átti að taka út kyn­fræðslu í ís­lenskum grunn- og fram­halds­skólum og koma með til­lögur að úr­bótum. Stofnun starfs­hópsins var vel aug­lýst í fjöl­miðlum, meðal annars með löngu við­tali við Lilju Al­freðs­dóttur, þá­verandi mennta- og menningar­mála­ráð­herra, og tvo með­limi starfs­hópsins.

Starfs­hópurinn lauk störfum í júní 2021, en í skýrslu hópsins má finna ýmsar til­lögur að úr­bótum sem myndu bæta gæði kyn­fræðslunnar sem boðið er upp á í ís­lenskum skólum. Meðal annars kemur fram að upp­færa þurfi laga­rammann um kyn­fræðslu, kort­leggja kennara­menntun hvað varðar kyn­fræðslu og það náms­efni sem er í boði, auk þess að gera að­gerða­á­ætlun við kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi. Sum þessara verk­efna eiga þegar að vera leyst, en ekkert hefur heyrst, hvorki frá Lilju sjálfri né frá ný­stofnuðu mennta- og barna­mála­ráðu­neyti. Við veltum fyrir okkur hver til­gangurinn er með stofnun starfs­hóps og skýrslu­gerð, ef ekki á að gera þær úr­bætur sem lagðar voru fram.

Sýnt hefur verið fram á mikil­vægi kyn­fræðslu með er­lendum og ís­lenskum rann­sóknum. Gagn­semi hennar má meðal annars sjá í aukinni smokka­notkun, færri kyn­sjúk­dóma­smitum en ekki síst í á­byrgari kyn­hegðun varðandi sam­þykki, virðingu og sam­bönd. Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið staðið nægi­lega vel að kyn­fræðslu á Ís­landi, saman­ber niður­stöður starfs­hópsins.

Kyn­fræðsla á að vera skyldu­fag í öllum grunn- og fram­halds­skólum landsins. Ekki er nóg að fá inn utan­að­komandi aðila í ein­staka kennslu­stund og láta þar við sitja. Í dag er engin sér­stakur rammi utan um kyn­fræðslu eða kennslu um kyn­heil­brigði. Móta þarf stefnu um hvernig kennsla um kyn­heil­brigði á að vera, hvað á að kenna, hvernig og hver á að sinna kennslunni.

Ungt fólk kallar eftir betra sam­tali um kyn­heil­brigði. Ný­legar ís­lenskar rann­sóknir benda til þess að ung­lingar telji vera skort á al­mennum um­ræðum um kyn­líf, til­finningar og sam­skipti. Á­herslur í kennslu um kyn­heil­brigði hafa gjarnan verið á notkun getnaðar- og kyn­sjúk­dóma­varna, og kyn­sjúk­dóma. Kyn­líf snýst þó ekki að­eins um að koma í veg fyrir kyn­sjúk­dóma­smit eða ó­ráð­gerðar þunganir heldur á það að snúast um allt sem við kemur því að vera kyn­vera í takt við skil­greininguna á al­hliða kyn­fræðslu. Um­ræðan hefur til dæmis opnast um mikil­vægi kyn­ferðis­legrar á­nægju og unaðs. Þessir þættir á­samt um­ræðu um sam­skipti, sam­þykki og virðingu þurfa að vera í for­grunni þeirrar kyn­fræðslu sem ung­lingar og ungt fólk fá. Mikil­vægt er að ung­lingar þekki sín mörk og kunni að virða mörk annarra. Kennsla um kyn­heil­brigði þarf því að koma til móts við þessar á­herslur.

Aug­ljóst er að leggja þarf meiri metnað í kyn­fræðslu og gefa henni raun­veru­legt rými innan Aðal­nám­skrár grunn- og fram­halds­skóla. Tíma­bært er að taka þá um­ræðu al­var­lega og ganga strax til verks til að tryggja kyn­heil­brigði ungs fólks í landinu.

Höfundar greinar eru stjórnarmeðlimir í Samtökum um kynheilbrigði