Kynfræðsla er ævilangt ferli þar sem einstaklingur aflar sér þekkingar og myndar sér skoðanir, viðhorf og gildi um eigin sjálfsmynd og kynverund. Alhliða kynfræðsla byrjar snemma á lífsleiðinni, miðar að aldri hvers og eins, veitir upplýsingar um heilbrigði og vellíðan, leggur áherslu á heilsusamlega hegðun og færni og vinnur með viðhorf og lífsgildi nemenda.
Á haustmánuðum 2020 var tilkynnt um stofnun starfshóps á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, en hópurinn átti að taka út kynfræðslu í íslenskum grunn- og framhaldsskólum og koma með tillögur að úrbótum. Stofnun starfshópsins var vel auglýst í fjölmiðlum, meðal annars með löngu viðtali við Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, og tvo meðlimi starfshópsins.
Starfshópurinn lauk störfum í júní 2021, en í skýrslu hópsins má finna ýmsar tillögur að úrbótum sem myndu bæta gæði kynfræðslunnar sem boðið er upp á í íslenskum skólum. Meðal annars kemur fram að uppfæra þurfi lagarammann um kynfræðslu, kortleggja kennaramenntun hvað varðar kynfræðslu og það námsefni sem er í boði, auk þess að gera aðgerðaáætlun við kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Sum þessara verkefna eiga þegar að vera leyst, en ekkert hefur heyrst, hvorki frá Lilju sjálfri né frá nýstofnuðu mennta- og barnamálaráðuneyti. Við veltum fyrir okkur hver tilgangurinn er með stofnun starfshóps og skýrslugerð, ef ekki á að gera þær úrbætur sem lagðar voru fram.
Sýnt hefur verið fram á mikilvægi kynfræðslu með erlendum og íslenskum rannsóknum. Gagnsemi hennar má meðal annars sjá í aukinni smokkanotkun, færri kynsjúkdómasmitum en ekki síst í ábyrgari kynhegðun varðandi samþykki, virðingu og sambönd. Þrátt fyrir þetta hefur ekki verið staðið nægilega vel að kynfræðslu á Íslandi, samanber niðurstöður starfshópsins.
Kynfræðsla á að vera skyldufag í öllum grunn- og framhaldsskólum landsins. Ekki er nóg að fá inn utanaðkomandi aðila í einstaka kennslustund og láta þar við sitja. Í dag er engin sérstakur rammi utan um kynfræðslu eða kennslu um kynheilbrigði. Móta þarf stefnu um hvernig kennsla um kynheilbrigði á að vera, hvað á að kenna, hvernig og hver á að sinna kennslunni.
Ungt fólk kallar eftir betra samtali um kynheilbrigði. Nýlegar íslenskar rannsóknir benda til þess að unglingar telji vera skort á almennum umræðum um kynlíf, tilfinningar og samskipti. Áherslur í kennslu um kynheilbrigði hafa gjarnan verið á notkun getnaðar- og kynsjúkdómavarna, og kynsjúkdóma. Kynlíf snýst þó ekki aðeins um að koma í veg fyrir kynsjúkdómasmit eða óráðgerðar þunganir heldur á það að snúast um allt sem við kemur því að vera kynvera í takt við skilgreininguna á alhliða kynfræðslu. Umræðan hefur til dæmis opnast um mikilvægi kynferðislegrar ánægju og unaðs. Þessir þættir ásamt umræðu um samskipti, samþykki og virðingu þurfa að vera í forgrunni þeirrar kynfræðslu sem unglingar og ungt fólk fá. Mikilvægt er að unglingar þekki sín mörk og kunni að virða mörk annarra. Kennsla um kynheilbrigði þarf því að koma til móts við þessar áherslur.
Augljóst er að leggja þarf meiri metnað í kynfræðslu og gefa henni raunverulegt rými innan Aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla. Tímabært er að taka þá umræðu alvarlega og ganga strax til verks til að tryggja kynheilbrigði ungs fólks í landinu.
Höfundar greinar eru stjórnarmeðlimir í Samtökum um kynheilbrigði