Skip to content

30 ára afmæli Samtaka um kynheilbrigði fagnað

29. september 2022

Samtök um kynheilbrigði (KynHeil) sem áður nefndust Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir voru stofnuð í Reykjavík 28. september árið 1992 og fagna því 30 ára afmæli á þessu ári. Tilgangur samtakanna frá upphafi hefur verið að vinna að jöfnum rétti allra í samfélaginu til kynheilbrigðis. Sérstaklega er þetta mikilvægt fyrir ungt fólk og þá sem standa höllum fæti. Samtökin hafa byggst á þverfræðilegu samstarfi og hefur rík áhersla verið lögð á samstarf við ýmsar stofnanir og önnur félagasamtök.

Verkefni samtakanna hafa einkum falist í því að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum á margan hátt, meðal annars með því að koma í veg fyrir óráðgerða þungun, kynsjúkdóma, uppræta kynferðisofbeldi í samfélaginu og hvers konar ójöfnuð. Mikilvægur þáttur í því að fyrirbyggja óráðgerðar þunganir var að auðvelda aðgengi að neyðarpillunni. Samtökin héldu fjölda fræðslufunda fyrir fagaðila um neyðarpilluna og var hún síðan gerð aðgengileg í apótekum árið 2000. Til margra ára voru samtökin með móttöku fyrir ungt fólk í Hinu húsinu þar sem það gat fengið fræðslu og ráðgjöf um kynheilbrigðismál.

Samtökin hafa lagt áherslu á heildræna og gagnvirka kennslu um kynheilbrigði í skólum landsins. Árið 2011 gáfu samtökin út fyrsta heildstæða kynfræðsluefnið hér á landi fyrir ungt fólk í framhaldsskólum sem bar heitið Ungt fólk og kynlíf. Það efni er nú í endurskoðun hjá samtökunum enda hafa verulegar samfélagslegar breytingar átt sér stað á síðustu tíu árum. Hafa fulltrúar margra félagasamtaka eins og Samtökin ‘78, Trans Ísland, Tabú, Kynfræðifélag Íslands ásamt ýmsum fagaðilum komið að þeirri endurskoðun. Mun nýtt efni með breyttum áherslum brátt líta dagsins ljós. Slíkt námsefni, ef vel er að kennslu þess staðið, er ætlað að stuðla að kynheilbrigði ungs fólks.

Samtökin hafa því komið að alls kyns stefnumótun í samfélaginu sem varðar kynheilbrigðismál en þau hafa átt sitt blómaskeið en jafnframt niðursveiflur. Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að endurreisn samtakanna, gerð hefur verið ný starfsáætlun og lögin endurskoðuð. Í þessari vinnu var heiti samtakanna breytt og í stefnu samtakanna lögð skýrari áhersla á jákvæða þætti kynlífs eins og kynferðislega ánægju og valdeflingu einstaklingsins sem kynveru. Sett voru fram slagorð samtakanna sem eru Ánægja-Samskipti-Traust. Áfram er lögð áhersla á að allir hafi möguleika á því að nýta rétt sinn til kynheilbrigðis sem felur það meðal annars í sér að vera viðurkenndur sem kynvera í samfélaginu og geta notið sín án nokkurra fordóma. Réttur til kynheilbrigðis felur einnig í sér að geta fengið kennslu um kynheilbrigði í skólum landsins og hafa greiðan aðgang að kynheilbrigðisþjónustu til að geta lifað ánægjulegu og heilbrigðu kynlífi. Slíkar áherslur eru víða í nágrannalöndum okkar og koma fram í stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um kynheilbrigði í Evrópu sem var samþykkt árið 2016. Eitt af mikilvægum stefnumálum samtakanna er að gerast meðlimur í Alþjóðasamtökum um fjölskylduáætlun (IPPF). Slík aðild veitir viðurkenningu á starfsemi samtakanna, eflir samstarf við systrasamtök í Evrópu og á Norðurlöndunum. Jafnframt er mikilvægt að vinna að stefnu um kynheilbrigði fyrir Ísland í samstarfi við IPPF og stjórnvöld hér á landi.

Frekari upplýsingar um samtökin eru á heimasíðu þeirra: kynheilbrigdi.is en síðan mun brátt fá nýtt andlit. Við hvetjum alla áhugasama að skrá sig í samtökin.