Skip to content

Réttur til kynheilbrigðis

Byggt á “sexual rights” WAS 2014. ©Sóley S. Bender þýddi.

1. Réttur til jafnréttis og vera ekki mismunað.

(The right to equality and non-discrimination).
Sérhver maður á rétt á að njóta þess réttar, sem settur er fram í þessu réttarskjali, án nokkurrar mismununar t.d. út frá kynstofni, þjóðaruppruna, litarhætti, kyni, tungumáli, trúarbrögðum, pólitískum eða öðrum skoðunum, uppruna, búsetu, eignarstöðu, fæðingu, fötlun, aldri, þjóðerni, hjúskapar- og fjölskyldustöðu, kynhneigð, kynvitund, heilsu, fjárhagslegri- eða félagslegri stöðu eða annarri stöðu.

2. Réttur til lífs, frelsis og öryggis

(The right to life, liberty and security of the person).
Sérhver maður á rétt til lífs, frelsis og öryggis sem kynvera án þess að vera ógnað eða frelsi hans og öryggi takmarkað á nokkurn hátt. Þetta á við um kynhneigð, kynferðislegt samþykki, kynvitund eða þegar einstaklingurinn sækir sér eða fær kynheilbrigðisþjónustu.

3. Réttur til sjálfstjórnar og líkamlegs öryggis

(The right to autonomy and bodily integrity)
Sérhver maður á rétt á því að stjórna og ákveða á frjálsan hátt um málefni er varða kynlíf hans og líkamann. Í því felst að velja hvernig hann kýs að lifa kynlífi og með hverjum svo framarlega sem hann tekur tillit til réttar hins aðilans. Í þessu felst að einstaklingurinn á rétt á því að ákveða á upplýstan hátt og með upplýstu samþykki hvort hann vill taka þátt í hvers kyns prufum, íhlutunum, meðferðum, aðgerðum eða rannsóknarverkefnum er lúta að kynlíf hans.

4. Réttur til að vera laus undan pyndingum, grimmilegri, ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð eða refsingu

(The right to be free from torture and cruel, inhuman, or degrading treatment or punishment).
Sérhver maður skal vera laus undan pyndingum, grimmilegri, ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð eða refsingu er lýtur að kynlífi hans þar með taldir skaðlegir hefðbundnir starfshættir, þvinguð ófrjósemisaðgerð, getnaðarvarnir eða þungunnarrof og annars konar pyndingar, grimmileg, ómannúðleg eða niðurlægjandi meðferð vegna kyns, kyngervis, kynhneigðar, kynvitundar eða mismunandi líkamlegs útlits.

5. Réttur til að vera laus undan hvers kyns ofbeldi og þvingunum

(The right to be free from all forms of violence and coercion).
Sérhver maður á rétt á því að vera laus undan hvers kyns ofbeldi og þvingunum eins og nauðgun, kynferðisofbeldi, kynferðislegri áreitni, einelti eða að vera notaður til kynlífsþrælkunar, mansals, settur í skírlífispróf en einnig valdbeiting vegna raunverulegra eða skynjaðra kynlífsathafna, kynhneigðar, kynvitundar og mismunandi líkamlegs útlits.

6. Réttur til einkalífs

(The right to privacy)
Sérhver maður á rétt á einkalífi varðandi sitt eigið kynlíf, eigin líkama, samþykkt kynferðisleg sambönd og athafnir án nokkurra geðþóttafullra afskipta annarra. Í þessu felst að ráða því hvaða persónulegu upplýsingar eru gefnar til annarra um eigið kynlíf.

7. Réttur til að lifa sem heilbrigðustu lífi, þar með heilbrigðu kynlífi, geta átt ánægjulegt og fullnægjandi kynlíf þar sem kynferðislegs öryggis er gætt

(The right to the highest attainable standard of health, including sexual health; with the possibility of pleasureable, satisfying and safe sexual experiences)
Sérhver maður á rétt á því að lifa sem heilbrigðustu lífi, þar með heilbrigðu kynlífi, geta átt ánægjulegt og fullnægjandi kynlíf þar sem kynferðislegs öryggis er gætt. Í því felst að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu af góðum gæðum sem skipt getur máli varðandi kynheilbrigði einstaklingsins.

8. Réttur til að njóta afraksturs vísindalegra framfara

(The right to enjoy the benefits of scientific progress and its application)
Sérhver maður á rétt á því að njóta afraksturs vísindalegra framfara hvað viðkemur kynlífi hans og kynheilbrigði.

9. Réttur til að fá upplýsingar

(The right to information)
Sérhver maður á rétt á því að hafa aðgang að vísindalega nákvæmum og skiljanlegum upplýsingum um kynlíf, kynheilbrigði og rétt til kynheilbrigðis. Slíkar upplýsingar skulu ekki vera ritskoðaðar né haldið frá einstaklingnum eða rangfærðar.

10. Réttur til menntunar og heildstæðrar kynfræðslu

(The right to education and to comprehensive sexuality education)
Sérhver maður á rétt á menntun og fá heildstæða kynfræðslu. Heildstæð kynfræðsla þarf að vera viðeigandi miðað við aldur, vísindalega nákvæm, menningarlega næm, byggjast á mannréttindum, jafnrétti kynjanna og með jákvæða sýn á kynlíf og ánægju þess.

11. Réttur til að ganga í, vera í og slíta hjónabandi eða öðrum svipuðum parasamböndum á jafnréttisgrunni og með fullu samþykki

(The rights to enter, form and dissolve marriage and other similar types of relationships based on equality and full and free consent)
Sérhver maður á rétt á því að ráða því hvort hann gengur í hjónaband eða ekki og að hjónaband eða annars konar parasamband sem hann kýs að fara í byggi á fullu og frjálsu samþykki hans. Allar manneskjur eiga rétt á jafnrétti þegar stofnað er til samabands, meðan á því varir og við slit þess hvort sem um er að ræða hjónaband eða annars konar samband og að það sé án nokkurrar mismununar eða útilokunar. Þessi réttur felur í sér jafnan rétt til félagslegrar velferðar og annarra bóta óháð tegund sambandsins.

12. Réttur til að ákveða hvort einstaklingurinn vill eignast barn, fjölda barna og bil milli barneigna og hafa upplýsingar og aðstöðu til þess

(The right to decide whether to have children, the number and spacing of children and to have the information and the means to do so)
Sérhver maður á rétt á að ákveða hvort hann vill eignast barn, fjölda barna og bil milli barneigna. Til að framfylgja þessum rétti þarf einstaklingurinn að hafa aðgang að þjónustu sem stuðlar að almennu heilbrigði og vellíðan hans og þar með talin kynheilbrigðisþjónusta sem lýtur að meðgönguvernd, ráðgjöf um getnaðarvarnir, frjósemi, þungunarrof og ættleiðingu.

13. Réttur til frjálsrar hugsunar, skoðana og tjáfrelsi

(The right to the freedom of thought, opinion and expression)
Sérhver maður hefur rétt til frjálsrar hugsunar, skoðana og að tjá sig um kynlif. Í því felst réttur til að tjá sig útlitslega sem kynvera, með orðum og hegðun en hann þarf að taka fullt tillit til réttar annarra.

14. Réttur til að vinna með öðrum og taka þátt í friðsamlegum samkomum

(The right to freedom of association and peaceful assembly)
Sérhver maður á rétt á því, á friðsamlegan hátt, að skipuleggja og safna saman fólki til að mótmæla og leggja áherslu á málefni er varða m.a. kynlíf, kynlífsheilbrigði og rétt til kynheilbrgðis.

15. Réttur til að taka þátt í opinberu og pólitísku lífi

(The right to participation in public and political life)
Sérhver maður á rétt á þeim aðstæðum sem gera honum það kleift á virkan, frjálsan, og merkingabæran hátt að taka þátt í borgaralegu-, fjárhagslegu-, félagslegu- , menningarlegu- og pólitísku lífi sem fram fer staðbundið, í eigin landi, svæðisbundið og á alþjóðlega vísu. Sérstaklega eiga allar manneskjur rétt á að taka þátt í þróun og framkvæmd stefnu er lýtur að velferð þeirra, kynverund og kynheilbrigði.

16. Réttur til að hafa aðgang að réttarkerfi, réttarúrræðum og bótum

(The right to access to justice, remedies and redress)
Sérhver maður á rétt á því að hafa aðgang að réttarkerfi, réttarúrræðum og bótum þegar brotið hefur verið á rétti hans til kynheilbrigðis.Til staðar þarf að vera árangursrík, nægjanleg, aðgengileg og viðeigandi fræðsluþjónusta, lögfræðiþjónusta , réttarkerfi og önnur úrræði. Réttarúrræði fela m.a. í sér eignabætur, skaðabætur, endurhæfingu og réttarvernd.

22. janúar 2023

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.