Skip to content

Sjálfsmynd

Sjálfsmynd er sú heildarmynd sem einstaklingurinn hefur af sjálfum sér. Hluti af þeirri mynd er mat einstaklingsins á eigin líkama. Þannig spilar sú mynd sem einstaklingurinn hefur af eigin líkama inn í þá heildarmynd sem einstaklingurinn hefur af sjálfum sér sem manneskja. Sjálfsvirðing (e. self-esteem) er mat einstaklingsins á sjálfum sér. Sá sem hefur sterka sjálfsvirðingu á oft auðveldar með að standa með sjálfum sér og ráða við hlutina.

Ef sjálfsvirðingin er skoðuð sérstaklega út frá einstaklingnum sem kynvera þá er það kallað kynferðisleg sjálfsvirðing (e. sexual self-esteem). Kynferðisleg sjálfsvirðing nær til þess að líta jákvætt á eigin kynlíf þar meðtalið kynferðislegar hugsanir, tilfinningar og kynhegðun. Auk þess að hafa jákvæða skynjun á eigin líkana. Slík sjálfsvirðing byggist upp með kynferðislegri reynslu. Til að byrja með er einstaklingurinn oft óviss og jafnvel klaufalegur gagnvart kynlífsfélaga en  með aukinni jákvæðri reynslu byggist upp meiri sjálfsvirðing á kynferðislegu sviði. Einstaklingurinn fer smám saman að hafa jákvæðari viðhorf til kynferðislegra athafna og nær þá að ráð betur við hlutina og er þá færari að geta notið kynlífs.

Þeir sem hafa kynferðislega sjálfsvirðingu glíma síður við kynferðisleg vandamál. Þeir eru fremur  í heilbrigðum  og kynferðislega nánum samböndum og eiga betur með tjáskipti í samböndum. Þegar einhver ber virðingu fyrir sjálfum sér sem kynvera þá helst það í hendur við það að geta notið kynlífs. Margt getur haft áhrif á kynferðislega sjálfsvirðingu eins og jafningjahópur. Einstaklingurinn getur þróað jákvæða eða neikvæða mynd af sjálfum sér sem kynvera og þannig haft jákvæða eða neikvæða kynferðislega sjálfsvirðingu.

22. janúar 2023

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.