Skip to content

Unaður í kynlífi

Hvað veitir þér unað?

Þegar rætt er um kyntjáningu, kynlöngun, nánd og ást þætti líklega flestum okkar erfitt að velja eitthvert eitt atriði sem veitir unað. Það er nefnilega svo ótalmargt, hvort sem er athafnir, tilfinningar, svörun og unaðskveikjur, sem veitir okkur kynferðislega fullnægju. Manneskjur upplifa kynferðislegan unað eftir mörgum og mismunandi leiðum:

  • Sjálfsfróun, í einrúmi eða með öðrum
  • Kossar
  • Markviss snerting líkama
  • Örvun kynnæmra svæða hvar sem er á líkamanum
  • Samfarir, um leggöng, munn eða endaþarm
  • Notkun á unaðstækjum og unaðsaukandi vörum
  • Notkun á erótísku efni, t.d. klámi
  • Örvandi tal

Allt þetta getur, ef það fer fram á jákvæðan og ánægjuaukandi hátt, fært okkur líkamlega og/eða hugræna fullnægju. Með aldri og margþættri lífsreynslu lærist okkur oft að kynferðislegur unaður felur í sér miklu fleira en bara að örva kynnæm svæði og fá fullnægingu. Kynferðislegur unaður felst í heildrænni upplifun (umhverfi og samhengi, stemning, öryggi, samþykki, traust, samskipti …) og því hversu sterk tenging myndast milli tveggja einstaklinga. Það sem veitir unað er mismunandi hjá hverju og einu okkar og getur líka verið breytilegt frá degi til dags.

Að tala um það sem við viljum

Til að geta sagt öðrum frá því hvað veitir þér unað þarftu fyrst að átta þig á því hvað þú vilt að kynlífið gefi þér og hvað þér finnst æsandi. Því næst þarftu að hugleiða hvaða atriði þarf að ræða sérstaklega til að þínum þörfum verði mætt. Þú og kynlífsfélagi þinn gætuð t.d. spurt hvort annað að eftirfarandi:

  • Hvað viltu stunda kynlíf oft?
  • Hver á að eiga frumkvæði að kynlífi?
  • Ert þú sátt(ur) við þína kynsvörun, þ.m.t. fullnæginguna?
  • Hvaða stellingar finnast þér bestar?
  • Er eitthvað sem þig langar til að prófa í kynlífinu?
  • Hvað finnst þér æsandi?
  • Hvernig finnst þér best að láta snerta þig?
  • Hvar eru unaðssvæðin þín?

Þetta eru allt atriði sem elskendur sem lifa góðu og gefandi kynlífi ræða sín á milli – þannig vita þau hvort þau ganga í takt, hvort báðir aðilar hafa jafnmikla ánægju af kynlífinu og, ef svo er ekki, geta unnið saman að því að ná því takmarki. Þau þurfa ekki að geta sér til um hlutina, heldur vita hvað makanum eða kynlífsfélaganum finnst og hvað hann/hún/hán þarf. Þau óttast ekki heldur að tala hreint út og opinskátt og leitast ævinlega við að eiga skýr samskipti. Það kemur varla á óvart að rannsóknir hafa leitt í ljós að opin og einlæg tjáning er nátengd kynferðislegri fullnægju. Þetta er að hluta til vegna þess að hreinskilni og opin tjáning eykur traust milli aðilanna. Þegar slík tjáning er gagnkvæm upplifa báðir aðilar jafnræði og eiga auðveldara með að treysta tengslin til lengri tíma.

22. janúar 2023

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.