Skip to content

Sjálfsfróun

Sjálfsfróun

Sjálfsfróun felur í sér örvun kynfæra og hafa flestir á einhverjum tímapunkti framkvæmt hana. Með því að stunda sjálfsfróun þá er einstaklingurinn að stunda öruggt kynlíf og þarf þá ekki að hafa neinar áhyggjur af óráðgerðri þungun eða að smitast af kynsjúkdómum. Einstaklingurinn lærir inn á sinn eigin líkama, hvað er gott og hvað ekki sem er mikilvæg forsenda þess að geta notið kynlífs með öðrum.

Sjálfsfróun er mikilvæg leið til að þekkja sjálfan sig áður en farið er í kynferðislegt samband með öðrum en er líka stunduð í kynferðislegum samböndum. Sjálfsfróun er heilsusamleg fyrir alla og veitir til dæmis slökun á öllum líkamanum og getur sjálfsfróun því haft jákvæð áhrif á svefn og virkað sem náttúrulegt svefnmeðal.

Ýmsar ranghugmyndir um sjálfsfróun

Lengi var litið á sjálfsfróun sem forboðna og byggðist það meðal annars á siðferðislegum og læknisfræðilegum sjónarmiðum. Til staðar voru allskyns ranghugmyndir um sjálfsfróun og eru eftirfarandi fullyrðingar dæmi um þær.

  • Það á að skammast sín fyrir að stunda sjálfsfróun.
  • Það er syndsamlegt að stunda sjálfsfróun.
  • Stelpur stunda ekki sjálfsfróun.
  • Fólk verður blint af því að stunda sjálfsfróun.
  • Það vex hár í lófanum ef þú stundar sjálfsfróun.
  • Sjálfsfróun getur leitt til móðursýki.
  • Að spilla sæði með sjálfsfróun samræmist ekki kröfum um að fjölga mannkyninu.

Allar þessar fullyrðingar eiga ekki við rök að styðjast. Það er heilbrigt og gott er að stunda sjálfsfróun.

Sagan

Stutt er síðan að vestræn samfélög losuðu sig undan þeirri sektarkennd sem fylgdi því að einstaklingurinn gæti notið kynlífs með sjálfum sér. Þessar breytingar má að hluta til þakka rannsóknum á sviði kynfræðinnar sem sýnt hafa meðal annars fram á algengi sjálfsfróunar en jafnframt breyttri sýn læknisfræðinnar.

Breytingar á afstöðu læknisfræðinnar fólust í því að víkja frá þeim viðhorfum að sjálfsfróun væri læknisfræðilegt vandamál sem gæti haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar. Í dag hefur samfélagsleg umræða um sjálfsfróun aukist og umfjöllun orðið jákvæðari og opnari sem meðal annars má sjá í sjónvarpsþáttum, á samfélagsmiðlum og víðar. Sem dæmi má nefna fjölgun auglýsinga um hjálpartæki ástarlífsins.

22. janúar 2023

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.