Skip to content

Samþykki

Ánægjulegt kynlíf

Það er mikilvægt að hver einstaklingur geti notið sín í kynlífi. Í því felst meðal annars gagnkvæm virðing, tillitssemi, gagnkvæm ábyrð og að hann geti sagt hvað hann vill og hvað hann vill ekki í kynlífi. Hann á rétt á því að setja sín eigin mörk en hann þarf jafnframt að virða mörk annarra. Gott samtal um kynlíf er líklegt til að stuðla að kynferðislegri ánægju beggja aðila. Kynferðislegt samþykki er grundvallarþáttur ánægjulegs kynlífs.

Hvað er samþykki í kynlífi?

Samþykki í kynlífi er þegar einstaklingur samþykkir ákveðna kynferðislega athöfn af fúsum og frjálsum vilja og án nokkurra þvingana. Þetta á við um allar athafnir kynlífs, svo sem kossa, snertingu, munnmök, samfarir og endaþarmsmök. Samþykki þarf að fá í hvert sinn og það er ekki nóg að hafa fengið samþykki einu sinni fyrir komandi athafnir. Samþykki er stöðugt samtal og því eins konar munnlegur samningur um mörk og hvað einstaklingi líður vel með að gera.

Upplýst samþykki

Það er eingöngu hægt að gefa samþykki fyrir kynferðislegum athöfnum sem búið er að ræða um. Til dæmis ef búið er að gefa samþykki fyrir kynmökum með kynsjúkdómavörn en hún er síðan ekki notuð er ekki lengur til staðar fullt samþykki.

Sértækt samþykki

Þó að gefið sé samþykki fyrir einni athöfn þýðir það ekki að samþykki hafi verið gefið fyrir öðrum athöfnum.
Sem dæmi má nefna þegar einhver samþykkir að fara heim með öðrum einstaklingi af djamminu. Þetta samþykki er ekki hægt að túlka sem samþykki fyrir samförum. Einnig getur verið að einstaklingur gefi samþykki fyrir kynmökum í leggöng en ekki kynmökum í endaþarm eða munn.

Þvingað samþykki

Samþykki er ekki hægt að fá með því að nota þrýsting, blekkingar eða hótanir. Eins getur einstaklingur sem er undir áhrifum áfengis, sterkra lyfja eða vímuefna ekki gefið samþykki. Þvingað samþykki á sér til dæmis stað þegar annar aðili suðar eftir því að hafa kynmök þar til hinn aðilinn gefur eftir.

Hvað segja íslensk lög um kynferðislegt samþykki?

Úr 194 gr. Hegningarlaga:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. [að beita blekkingum eða notfæra sér villu viðkomandi um aðstæður eða] 1) að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

22. janúar 2023

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.