Skip to content

Kynmök

Notuð eru ýmis orð yfir kynmök eins og samfarir, sofa saman og stunda kynlíf. Öll orðin ná yfir ákveðna kynlífsathöfn. Í þeirri athöfn felst náin snerting kynfæra tveggja einstaklinga eða náin snerting kynfæra eins einstaklings við aðra líkamshluta annars einstaklings. 

Eru til margar tegundir af kynmökum?

Orðið kynmök er notað yfir kynmök í leggöng, munnmök og endaþarmsmök.

Kynmök í leggöng er þegar stinnum getnaðarlim karlkyns eða trans einstaklings er rennt inn í leggöng kvenkyns eða trans einstaklings.

Munnmök er þegar annar aðilinn stundar kynferðisleg atlot með munni meðan hinn aðilinn upplifir örvun kynfæra. Munngælur felast annars vegar í að örva kynfæri kvenkyns eða trans einstaklings með munni. Það kallast á fagmáli cunnilingus. Hins vegar felast munngælur í því að örva kynfæri karlkyns eða trans einstaklings með munni. Það kallast á fagmáli fellatio.

Endaþarmsmök fela ekki endilega í sér að stinnum getnaðarlim sé rennt inn í endaþarm á öðrum einstaklingi heldur eru endaþarmsgælur ekki síður stundaðar. Endaþarmsgælur fela í sér að snerta og örva svæðið í kringum endaþarmsopið eins og með því að stinga fingri inn í endaþarminn til örvunar. Varðandi endaþarmsmök og endaþarmsgælur þarf ávallt að gæta vel að hreinlæti og nota alltaf smokka og/eða töfrateppi.

Það getur verið mjög mismunandi eftir fólki hvers konar kynmök eru stunduð. Það getur til dæmis tengst kynhneigð og aldri. Sumir vilja eingöngu stunda kynmök í leggöng og telja að það sé besta leiðin. Aðrir kjósa að blanda saman mismunandi kynmökum og gælum og enn aðrir eru kannski meira að stunda endaþarmsmök. Það fer eftir hverjum og einum að ákveða hvað hann hefur áhuga á og vill gera með kynlífsfélaga. Þessi ákvörðun þarf alltaf að vera frjáls og óþvinguð.

Þarf að undirbúa sig undir kynmök?

Til þess að geta notið kynmaka er gott að hafa kynnst vel þeim sem maður ætlar að stunda kynlíf með og gera ráðstafanir varðandi notkun getnaðar- og kynsjúkdómavarna. Það er líka mikilvægt að gefa sér tíma til upphitunar eða það sem kallað er forleikur. Forleikur felur til dæmis í sér að kyssast og snerta hvort annað á ýmsum stöðum líkamans og þar með að örva ákveðna líkamshluta kynferðislega. Forleikurinn er mikilvægur til að báðir aðilar séu tilbúnir að hafa kynmök. Leggöng kvenkyns eða trans einstaklinga þurfa að ná að blotna og þessi líkamlega örvun hjálpar til með það.

Er gott að hafa kynmök?

Fólk sækist eftir því að hafa kynmök þar sem þau geta gefið góða upplifun. Tilfinning um vellíðan getur streymt um líkamann og getur endað með fullnægingu. Þessi vellíðunartilfinning og fullnæging er þó háð mörgum þáttum. Það þarf að vera til staðar löngun, samþykki, öryggi og margt fleira til að hægt sé að njóta kynmaka. Þegar um gagnkvæma virðingu og ábyrgð er að ræða þá leggja báðir aðilar sig fram til að kynlífsathöfnin verði spennandi og skemmtileg og báðum til ánægju. Undir öllum venjulegum kringumstæðum er fólk að sækjast eftir vellíðan með því að stunda kynlíf.  

Geta kynmök haft einhverjar sérstakar afleiðingar?

Þegar karlkyns eða trans einstaklingur stundar kynlíf í leggöng þá getur verið hætta á þungun ef engar ráðstafanir eru gerðar með notkun getnaðarvarna. Það er hins vegar ekki hætta á þungun þegar kynmök í munn eða endaþarm eru stunduð. Hætta á smiti af völdum kynsjúkdóma getur alltaf verið til staðar alveg sama hvaða tegund kynmaka er stunduð. Ef einhver vafi leikur á því að annar eða báðir aðilar geti verið smitaðir af kynsjúkdómi þá er mikilvægt að nota alltaf smokk og/eða töfrateppi. Það ætti alltaf að fara sem fyrst í tékk á heilsugæslustöð ef grunur er um að hafa smitast af kynsjúkdómi.   

Heimildir:

Traeen, B., Fischer, N. & Kvalem, I.L. (2023). Sexual intercourse activity and activities associated with sexual interaction in Norwegians of different sexual orientations and ages. Sexual and Relationship Therapy, 38(4), 715-731. https://doi.org/10.1080/14681994.2021.1912316

Greenberg, J.S., Bruess, C.E. & Oswalt, S.B. (2017). Exploring the dimensions of human sexuality (6. útg.). Burlington: Jones & Bartlett Learning.

16. apríl 2023

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.