Hugtakið kynlöngun felur í sér að hafa löngun til kynlífs, með sjálfum sér eða öðrum. Löngun til að vilja kúra saman með annarri manneskju, kyssast og kela þarf ekki endilega að þýða löngun til að stunda kynlíf.
Kynlöngun er flókið fyrirbæri sem fólk upplifir á mismunandi hátt. Sumir upplifa hana sem sjálfsprottna en aðrir sem viðbragð við einhverju kynferðislegu eða notalegu. Sjálfsprottin kynlöngun felst til dæmis í því að finna allt í einu löngun til kynlífs án þess að einhver snerting eða orð vekji hana upp. Kynlöngun getur líka komið þegar einstaklingurinn upplifir til dæmis góða snertingu, horfir á eitthvað kynferðislegt eða heyrir ástleitin orð.
Er kynlöngun mismunandi?
Kynlöngun er mismunandi og er hún háð mörgum þáttum svo sem streitu, svefni, áhyggjum, kvíða og þunglyndi. Einstaklingur sem er í góðu jafnvægi, andlega, líkamlega og félagslega líður almennt betur en sá sem ekki er í góðu jafnvægi. Sá sem sefur vel líður að jafnaði betur en þeim sem sefur illa því þá sækir þreyta að einstaklingnum sem haft getur áhrif á kynlöngun. Það sem truflar kynlöngun er ójafnvægi milli þess hvernig við túlkum áreiti í mismunandi aðstæðum (t.d. snerting). Það er ekki aðeins áreitið sjálft sem ræður því hvort það er örvandi eða hamlandi, heldur samhengi áreitisins og hvernig viðkomandi túlkar það. Þannig getur snerting verið notaleg og örvandi í réttu samhengi en pirrandi eða ögrandi í öðru. Annað hvort mun taugakerfið túlka það sem þú hugsar, heyrir, sérð, finnur lykt af, finnur bragð af, hvað húðin skynjar og hvernig þér líður sem jákvætt og kveikja löngun, eða neikvætt og slökkva löngun. Þetta skýrir hvers vegna það sama virkar ekki í hvert skipti til þess að kveikja kynlöngunina.
Hvað stjórnar kynlönguninni?
Taugakerfið sér um að stjórna kynlönguninni. Miðtaugakerfið, heili og mæna, stjórnar kynlönguninni og sendir boð til úttaugakerfisins sem veldur kynsvörun í ákveðnum líkamspörtum, til dæmis kynfærum. Úttaugakerfið er bæði viljastýrt og ósjálfrátt. Ósjálfráða taugakerfið skiptist í driftaugakerfið (sympatíska) og seftaugakerfið (parasympatíska) taugakerfið. Það er ósjálfráða taugakerfið sem stýrir kynsvöruninni. Þessi tvö kerfi stjórna því hvort við höfum áhuga á kynlífi eða ekki. Þau virkjast svo á víxl eftir því hvort kynferðislegt áreiti, til dæmis hugsanir, lykt, snerting, bragð, hljóð eða sjón, hefur örvandi eða hamlandi áhrif á taugakerfið. Taugakerfið er hannað þannig að einungis annað þessara kerfa hefur yfirhöndina í einu. Streita, ótti eða óöryggi slekkur því á kynlöngun.
Heimildir:
Áslaug Kristjánsdóttir. (2023). Lífið er kynlíf. Handbók kynfræðings um langtímasambönd. Bókaútgáfan á.
Basson, R. (2000). The female sexual response: A different model. Journal of Sex & Marital Therapy, 26(1), 51–65. https://doi.org/10.1080/009262300278641
Nagoski, E. (2015). Come as you are: The surprising new science that will transform your sex life. Simon and Schuster.
Nasimbera, A., Rosales, J., Silva, B., Alonso, R., Bohorquez, N., Lepera, S., … og Rodriguez, G. E. (2018). Everything you always wanted to know about sex and neurology: neurological disability and sexuality. Arquivos de NeuroPsiquiatria, 76(7), 430–435. https://doi.org./10.1590/0004-282×20180061