Skip to content

Ef eitthvað fer úrskeiðis

Þegar kemur að því að stunda kynlíf getur margt farið úrskeiðis. Að geta notið kynlífs er háð mörgum þáttum eins og að hafa löngun til kynlífs, upplifa gagnkvæma virðingu, vera hrifin/ið/inn af mótaðilanum, vera samþykk/t/ur því að stunda kynlíf, geta upplifað snertingu á jákvæðan og góðan hátt og margt fleira. Stundum er ekki hægt að njóta kynlífs ef forleikurinn hefur verið stuttur eða að einhverju leyti ófullnægjandi. Það er nauðsynlegt að tala saman um kynlíf og langanir en einnig ef eitthvað kemur uppá. Samtalið getur leyst ýmsan vanda og komið í veg fyrir misskilning og frekari vandamál.

Er líkaminn tilbúinn?

Ef ætlunin er að hafa kynmök í leggöng er mikilvægt að leggöngin séu tilbúin að taka á móti getnaðarlimnum og getur verið hjálplegt að stunda góðan forleik til að leggöngin séu rök en einnig að smyrja leggöngin og getnaðarliminn svo að allt gangi vel fyrir sig. Ef kvenkyns eða trans/kynsegin einstaklingur hefur kynmök og leggöngin eru þurr getur verið sársaukafullt að stunda kynlíf. Það er engum til ánægju.

Ungir karlmenn og trans/kynsegin einstaklingar geta mögulega lent í því að eitthvað fari úrskeiðis við að stunda kynlíf vegna þess að getnaðarlimurinn nær ekki þeirri reisn sem þarf til að hafa kynmök eða linast eftir að kynferðisleg atlot hefjast því kynferðisleg örvun er ekki nægjanleg. Þeir sem ekki hafa þjálfað sig í að nota smokkinn geta lent í því að smokkanotkun klúðrist eitthvað og geta þá misst reisn. Sá sem er búinn að æfa notkun lendir sjaldnast í vandræðum með smokkanotkun.

Er þetta ekki spurning um að báðir njóti kynlífsins?

Þegar fólk stundar kynlíf er mikilvægt að báðir aðilar geti notið þess. Það getur skipt máli að hafi stundað sjálfsfróun og þekkja þá betur eigin líkama. Löngun til kynlífs er ekki alltaf sú sama hjá báðum aðilum. Annar aðilinn getur haft meiri löngun en hinn. Sá sem hefur meiri löngun þrýstir stundum á hinn aðilann að stunda kynlíf. Það er mikilvægt að geta rætt saman um það hvað maður vill og vill ekki. Það á enginn að þurfa að stunda kynlíf bara til að þóknast hinn aðilann. Maður þarf að hafa löngun til þess. Það geta verið margar ástæður fyrir því að annar aðilinn hafi ekki löngun og má þar til dæmis nefna alls kyns álag, þreyta, veikindi og margt fleira.

Frekari upplýsingar: Til þess að kynna sér betur upplýsingar um kynlífsraskanir þá eru t.d. upplýsingar á heilsuvera.is.

Heimildir:

Beckmeyer, J.J., Herbenick, D., Fu, T-C, Dodge, B. & Fortenberry, D. (2021). Pleasure durting adolescents‘ most recent partnered sexual experience: Findings from a U.S. probability survey. Archives of Sexual Behavior, 50:2423-2434. https://doi.org/10.1007/s10508-021-02026-4

Bender, S.S., Hilmarsdottir, K. & Gunnarsdottir, TH.J. (2024). Unmet sexual health needs of young men in contempoerary society regarding condom use: Qualitative study. Sexual and Reproductive Healthcare, 39, 100947. https://doi.org/10.1016/j.srhc.2024.10094

Greenberg, J.S., Bruess, C.E. & Oswalt, S.B. (2017). Exploring the dimensions of human sexuality (6. útg.). Burlington: Jones & Bartlett Learning.

 

16. apríl 2023

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.