Skip to content

Smokkar

Hversu öruggur er smokkurinn?

Mesta öryggi er 98% ef smokkurinn er rétt notaður.

Hvað er smokkur?

Smokkur er eins konar þunnur poki úr gúmmíi sem settur er yfir stinnan getnaðarlim fyrir samfarir. Með notkun hans fer sæðið í smokkinn og þannig er komið í veg fyrir getnað. Hann er líka góð vörn gegn kynsjúkdómum.  Smokkar eru til í ýmsum stærðum og gerðum. Þeir eru misþykkir, áferðin ólík og margar bragðtegundir eru til. Það er mikilvægt að finna þann smokk sem hentar best.

Hvernig á að nota smokkinn?

Smokk þarf að setja á stinnan getnaðarlim áður en hafðar eru samfarir. Athuga þarf dagsetningu á smokkapakkningunni og gæta þess að nota ekki smokk sem er orðinn of gamall. Fara þarf varlega þegar pakkningin er opnuð svo gúmmíið skemmist ekki. Ef notuð eru sleipiefni þá er mikilvægt að þau séu vatnsleysanleg. Ekki nota olíur eða feit krem á smokkinn. Að loknum samförum þarf að halda við smokkinn, þegar getnaðarlimur er dreginn út úr leggöngunum, svo hann renni ekki af. Setja hnút á smokkinn og henda honum í ruslið. Hver smokkur er aðeins notaður einu sinni. Ef smokkar eru notaðir sem aðalgetnaðarvörn þá þarf að nota þá í hvert skipti sem hafðar eru samfarir.

Hvaða kostir eru við smokkanotkunar?

Smokkurinn er örugg getnaðarvörn ef hann er notaður rétt. Hann er eina getnaðarvörnin sem ver bæði gegn þungun og kynsjúkdómum. Hann er auðveldur í notkun eftir að hafa æft notkunina. Notkun hans er eingöngu bundin við það þegar hafðar eru samfarir.

Er einhver sérstakur undirbúningur eða ókostir við notkun smokka?

Það þarf að sjá til þess að eiga hann til þegar á þarf að halda. Einnig þarf að æfa notkun hans áður en til raunverulegrar notkunar kemur. Jafnframt þarf að ræða notkun smokkanotkun við kynlífsfélaga áður en til samfara kemur. Smokkar sem gerðir eru úr latexefnum geta einstaka sinnum valdið ofnæmi. Til eru smokkar sem ekki eru úr latexefnum. Einstaka sinnum rifnar smokkur eða rennur af en það getur tengst því hvort fylgt var leiðbeiningum um smokkanotkun.

Lestu Meira um getnaðarvarnir á HEILSUVERU.

3. nóvember 2022

Hafðu samband

Hafðu endilega samband ef þér finnst vanta umfjöllun um einhver mikilvæg málefni sem tengjast kynheilbrigði. Einnig ef þú vilt segja okkur frá þinni reynslu varðandi kynfræðslu og kynheilbrigðisþjónustu.