Hversu örugg er pillan?
Mesta öryggi er 99,7%. Ef pillan gleymist þá minnkar öryggi hennar.
Hvað er pillan?
Pillan er getnaðarvörn í formi pillu. Hún inniheldur hormónin prógesterón og estrógen.
Hvernig á að taka pilluna?
Pillan er tekin inn daglega, yfirleitt í 21 dag og síðan er að jafnaði tekið viku hlé og koma þá blæðingar. Það er mjög mikilvægt að taka pilluna inn reglulega því þannig næst besta verkunin. Það er í lagi að sleppa hléi og halda áfram notkun á næsta pilluspjaldi.
Hvaða kostir eru við notkun á pillunni?
Pillan er mjög örugg getnaðarvörn ef hún er tekin inn á réttan hátt. Pillan getur t.d. komið meiri reglu á blæðingar.
Eru einhverjir ókostir við notkun pillunnar?
Pillan verndar ekki gegn kynsjúkdómum. Það þarf að muna að taka hana inn daglega. Tímabundnar aukaverkanir geta t.d. verið milliblæðingar, ógleði og höfuðverkur.