Hversu örugg er hormónasprautan?
Mesta öryggi er 99,8%.
Hvað er hormónasprauta?
Hún er gefin í vöðva á 3 mánaða fresti. Hormónasprautan inniheldur hormónið prógesterón.
Hversu lengi virkar hormónasprautan?
Hver sprauta gefur getnaðarvörn í þrjá mánuði. Það þarf því að fara í sprautu á þriggja mánaða fresti. Yfirleitt er farið til hjúkrunarfræðings á heilsugæslustöðvum til að fá sprautuna.
Hvaða kostir eru við notkun á hormónasprautu?
Hormónasprautan er mjög örugg getnaðarvörn. Hver sprauta virkar í 3 mánuði og þarf því ekki að muna eftir notkun t.d. daglega eða á vikufresti. Sprautan getur minnkað blæðingar og þær jafnvel hætt sem getur dregið úr blóðleysi af völdum járnskorts. Þessi getnaðarvörn inniheldur aðeins eitt hormón.
Eru einhverjir ókostir við notkun hormónasprautunnar?
Hormónasprautan verndar ekki gegn kynsjúkdómum. Það þarf að muna á þriggja mánaða fresti að fara í nýja sprautu. Eftir að notkun sprautunnar hefst verður yfirleitt tímabundin óregla á blæðingum en síðan minnka blæðingar og geta svo hætt. Aðrar tímabundnar aukaverkanir geta t.d. verið höfuðverkur og brjóstaspenna. Sumar konur/leghafar finna fyrir þyngdaraukningu.