Hversu öruggur er hormónaplásturinn?
Mesta öryggi er 99,7% ef hann er rétt notaður.
Hvað er hormónaplástur?
Hormónaplásturinn er ferkantaður, húðlitaður plástur sem inniheldur hormónin prógesterón og estrógen.
Hversu lengi virkar hver hormónaplástur?
Hver plástur virkar í 7 daga.
Hvernig á að nota hormónaplásturinn?
Hormónaplásturinn er límdur á þurra húð þar sem er lítill hárvöxtur. Það getur verið á upphandlegg, á baki og kvið. Mikilvægt að bera ekki einhver krem eða olíur á húðina áður en plásturinn er límdur á hana. Mælt er með því að skipta um stað þegar settur er nýr plástur. Notaðir eru þrír plástrar í röð samtals í 21 dag og svo er yfirleitt tekið viku hlé og koma þá blæðingar. Það er í lagi að sleppa hléi og halda áfram notkun á næstu plástrum.
Hvaða kostir eru við notkun hormónaplástra?
Hormónaplástur er mjög örugg getnaðarvörn ef hann er rétt notaður. Plásturinn er auðveldur í notkun. Ef hann er límdur vel á þurra húð þá losnar hann ekki þó farið sé í sund, sturtu eða gufubað. Hann getur t.d. komið meiri reglu á blæðingar.
Eru einhverjir ókostir við notkun hormónaplástra?
Hormónaplástrar vernda ekki gegn kynsjúkdómum. Það þarf að muna að skipta um plástur á vikufresti. Tímabundnar aukaverkanir geta t.d. verið milliblæðingar, ógleði og höfuðverkur. Stundum verður húðerting.