Hversu öruggur er hormónahringurinn?
Mesta öryggi er 99,7% ef hann er rétt notaður.
Hvað er hormónahringur?
Hormónahringur er glær hringur sem inniheldur hormónin prógesterón og estrógen.
Hvernig á að nota hormónahringinn?
Hormónahringnum er komið fyrir hátt upp í leggöngum konu/leghafa. Hann á að liggja fyrir framan leghálsinn. Notkun hvers hrings miðast við 21 dag en síðan er yfirleitt tekið viku hlé og koma þá blæðingar. Það er í lagi að sleppa hléi og halda áfram notkun og byrja strax að nota næsta hormónahring.
Hvaða kostir eru við notkun á hormónahring?
Hormónahringur er mjög örugg getnaðarvörn ef hann er rétt notaður. Það er auðvelt að koma honum fyrir og taka hann út. Hann getur t.d. komið meiri reglu á blæðingar.
Eru einhverjir ókostir við notkun á hormónahringnum?
Hormónahringurinn ver ekki gegn kynsjúkdómum. Það þarf að muna eftir að setja nýjan hring. Tímabundnar aukaverkanir geta t.d. verið milliblæðingar, ógleði og höfuðverkur. Stundum verður erting á slímhúð í leggöngum og aukin útferð.